Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur endurmetið hagvaxtarspá sína fyrir árið í 2,5% úr 2,6% og rekur verri horfur til lausafjárþurrðarinnar á fjármálamörkuðum undanfarið og óvænts samdráttar í Frakklandi. Þrátt fyrir verri horfur er spáð áframhaldandi krafti á evrusvæðinu en hinsvegar er það hald manna að óvissan sé mikil vegna hræringa á fjármálamörkuðum undanfarið.

Á fundi með blaðamönnum í gær sagði Joaquin Almunia, sem fer með efnahags- og peningamál í framkvæmdastjórninni, að sennilega hefði hagvaxtarskeiðið undanfarið náð hámarki. Hann tók þá fram að þrátt fyrir að framkvæmdastjórnin hefði lækkað spá sína um 0,1% þá væru stoðir hagkerfis evrusvæðisins og aðildarríkja sambandsins enn traustar. Hagvísar endurspegluðu þá staðreynd, en þeir sýna meðal annars mikla eftirspurn eftir vinnuafli, en atvinnuleysi hefur ekki mælst minna frá því snemma á níunda áratug nýliðinnar aldar, og áframhaldandi vöxt eftirspurnar í hagkerfinu í krafti einkaneyslu. Hinsvegar kom það fram í máli Almunia í gær að hætta væri á því að núverandi ástand á fjármálamörkuðum kynni hinsvegar að breyta þessu: Samdráttur í Bandaríkjunum og enn verra aðgengi að lausafé á fjármálamörkuðum kynni að hafa slæm áhrif á raunhagkerfið á evrusvæðinu.

Í spánni kemur fram að búist er við 2,4% hagvexti í Þýskalandi, mikilvægasta hagkerfi evrusvæðisins en hinsvegar fara horfurnar versnandi í Frakklandi. Þrátt fyrir að Nicolas Sarkozy hafi gripið til margvíslegra aðgerða til þess að örva hagvöxt gerir framkvæmdastjórnin aðeins ráð fyrir að hann verði 1,9% á árinu. Samdráttur hefur orðið í fjárfestingu fyrirtækja í hagkerfinu og gert er ráð fyrir að lausafjárþurrðin á mörkuðum muni draga enn frekar úr henni.

Spá framkvæmdastjórnarinnar er í takt við spár annarra stofnana sem eru orðnar svartsýnni á hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár og það næsta á evrusvæðinu. Í þeirra hópi eru meðal annars Seðlabanki Evrópu, Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, en búist er við sjóðurinn muni lækka hagvaxtarspá sína fyrir myntsvæðið fljótlega.