„Sveiflujöfnun Seðlabankans verður ekki eftir einhverri formúlu sem markaðurinn getur reiknað út á tveimur dögum,“ sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri meðal annars um þá stefnu bankans að leggjast gegn miklum sveiflum í gengi krónunnar í aðra hvora áttina sem er.

„En ef bankinn leggst of mikið gegn sveiflunni getur það stefnt verðbólgumarkmiðum í hættu til lengri tíma.“

Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi Seðlabankans í morgun þar sem Már ásamt Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóri gerðu grein fyrir rökum peningastefnunefndar fyrir ákvörðun sinni í morgun um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Geta ekki stöðvað grundvallarbreytingar

Sagði Már að peningastefnan geti ekki stöðvað þær grundvallarbreytingar sem eigi sér nú stað í íslensku efnahagslífi með þeim auknum ferðamannastraumi og tilheyrandi gjaldeyrisinnflæði.

„Augljóst er að styrking krónunnar kemur til af markaðsaðstæðum,“ sagði Már sem segir of snemmt að segja til um langtímaafleiðingar losunar gjaldeyrishaftanna.

„Ljóst er að markaðurinn er að leita að nýju jafnvægi í kjölfar þessara miklu breytinga sem hafa verið tilkynntar, en það er tilhneiging til að gera meira úr þeim til skamms tíma en efni standa. En það er okkar mati hugsanlegt að það skapist betra jafnvægi í inn- og útflæði.“

Ekki trygging fyrir inngripum

Már segir að þó bankinn stefni að því að leggjast gegn miklum sveiflum sé það ekki trygging fyrir því að hann grípi inn í öllum aðstæðum.

„Við munum stöðva spírala sem myndast í báðar áttir,“ segir Már. „Best er að markaðurinn finni sitt nýja jafnvægi með tíð og tíma, og að það sé sem stöðugast í báðar áttir.

Sveiflujöfnun Seðlabankans verður ekki eftir einhverri formúlu sem markaðurinn getur reiknað út á tveimur dögum.“