Dr. Sveinn Margeirsson hefur verið ráðinn forstjóri Matís ohf. Hann tekur við af dr. Sjöfn Sigurgísladóttur, sem verið hefur forstjóri Matís frá því að félagið tók til starfa 1. janúar 2007 og var forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þar á undan.

Sjöfn lætur nú af störfum að eigin ósk, að  því er fram kemur í tilkynningu frá Matís.

Samhliða breytingunum mun dr. Hörður G. Kristinsson taka við nýrri stöðu rannsóknastjóra Matís, ásamt því að starfa áfram sem sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs hjá félaginu.

Í fréttatilkynningunni þakkar stjórn Matís Sjöfn fyrir frábært  starf í þágu félagsins og fyrir hraða og örugga uppbyggingu þess undanfarin fjögur ár og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Matís hefur að markmiði að auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi. Meðal hlutverka félagsins eru efling nýsköpunar og aukin verðmæti og öryggi matvæla með öflugu þróunar og rannsóknastarfi.