Í nýrri skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á fjármálakafla sveitarstjórnarlaga fyrir Innanríkisráðuneytið er rætt um hvað hafi gengið vel og hvaða úrbætur megi gera á sveitarstjórnarlögunum frá árinu 2011.

Segir í skýrslunni að í meginatriðum hafi fjármálareglur laganna gefist vel þar sem fjárhagslegu viðmiðin sem þau setja veiti aðhald og leiða til markvissra vinnubragða og að fjármál sveitarfélaga séu nú þess vegna í betra horfi en fyrir gildistöku laganna.

Fjárfesting A-hluta í sögulegu lágmarki

Það sem þó megi laga að mati skýrsluhöfunda er meiri aðskilnaður milli A- og B- hluta rekstrar sveitarfélaganna, en fjárfesting A- hluta sveitarsjóða hafi verið í sögulegu lágmarki.

Segir í skýrslunni að áhöld séu um hvort rekstur sveitarfélaganna geti að óbreyttum tekjuramma staðið undir eðlilegri fjárfestingu án þess að fara í bága við fjármálareglur.

Sérstök fjárhagsleg viðmið fyrir hvorn hluta fyrir sig

Leggja skýrsluhöfundar að sérstök fjárhagsleg viðmið verði látin gilda um hvorn hlutann fyrir sig, en í dag taka reglurnar til A- og B- hluta saman þannig að halli A- hluta hefur verið veginn víða upp með afkomu B-hlutans.

Hins vegar sé starfsemi margra rekstrareininga B- hluta eðlisólík starfsemi A-hlutans, mörg B-hluta fyrirtæki séu mjög fjármagnsfrek og geti þar af leiðandi staðið undir meiri skuldum en í A-hluta.

Það sé því veikleiki að núverandi fjármálareglur beinist að samanteknum reikningsskilum A- og B- hluta en ekki sérstaklega að A-hluta.

Skuldbindingar verði innifaldar í samstæðu

Aðrar breytingar sem lagðar eru til er að veltufjármunir verði dregnir frá heildarskuldum  við útreikning skuldaviðmiðs, en í dag koma veltufjármunir umfram skammtímaskuldir til frádráttar við útreikning skuldaviðmiðs.

Jafnframt leggja skýrsluhöfundar til að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélagi hafi skýrari lagaheimildir og sérstök úrræði til að framfylgja kröfum um að sveitarfélög fylgi skulda og jafnvægisreglum um fjármál þeirra.

Einnig er lagt til að skuldbindingar sveitarfélaga vegna byggðasamlaga og fyrirtækja í þeirra eigu verði innifaldar í samstæðu sveitarfélagsins.

Jafnvægisreglan verði svo uppfærð þannig að hún taki til heildarafkomu í stað rekstrarafkoma, þannig að rekstrartekjurnar skuli til lengri tíma duga fyrir hvort tveggja í senn, rekstrar- og vaxtagjöld og fjárfestingu í varanlegum eignum.

Erlend lántaka rædd

Einnig er því velt upp hvort skuldaviðmið eigi að skilgreina þrengra en nú er og þannig undanþiggja reiknaðar stærðir eins og lífeyrisskuldbindingar þannig að viðmiðin nái einungis til skuldabréfa og lána.

Einnig er velt upp hugmyndum um hvernig haga skuli erlendum lántökum sveitarfélaga.