Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir vandamálið á húsnæðismarkaði fyrst og fremst felast í framboðsskorti. „Þetta er náttúrulega fyrst og fremst framboðið. Þetta er rosalegt vandamál sem við þurfum að leysa, og sveitarfélögin bera mikla ábyrgð, vegna skorts á lóðaframboði. Við þurfum að tryggja það að óhagnaðardrifin leigufélög eins og Bjarg fái lóðir og stofnstyrki til þess að halda áfram að vaxa og dafna.“

Síðustu stofnstyrkirnir séu áætlaðir á næsta ári, en það verkefni þurfi að framlengja. Lausnin sé ekki fólgin í að hjálpa fólki að fjármagna húsnæðiskaup. „Ef við förum að niðurgreiða til dæmis fyrstu kaupa lán, þá er töluverð hætta á því að það smitist bara út í hærra húsnæðisverð. Þetta er orðinn mjög brýnn vandi og ég held hreinlega að við þurfum bara að hugsa í einhvers konar bráðabirgðalausnum. Þar getum við litið til nágrannalandanna, þar sem bráðabirgðahúsnæði – sem samt uppfyllir alla gæðastaðla – hefur verið komið upp á lóðum sem eru ekki endilega ætlaðar sem íbúðalóðir til framtíðar. Lóðir sem bíða deiliskipulags og svo framvegis. Þetta á að vera hægt að gera án þess að slá af gæðum húsnæðis.“

Um er að ræða færanlegt húsnæði á lóðum þar sem því er ekki ætlað að standa til eilífðar. „En þetta eru engir braggar og þetta eru engir vinnuskúrar, þetta er bara almennilegt húsnæði. Við erum komin í þannig stöðu núna að við verðum að fara að hugsa í einhverjum svona lausnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .