Sveitarfélög hafa ekki ráð á lækkun útsvars nema ríkisvaldið bæti upp tapaðar tekjur, að mati Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóra Hveragerðisbæjar. „Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga að sveitarfélögin eru ekki aflögufær með þá þjónustubyrði og tekjustofna sem þau hafa,“ segir Aldís. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að verkalýðsforystan þyrfti að snúa sér að sveitarfélögum vildi hún lækka tekjuskatt þeirra lægst launuðu frekar. Bjarni benti á að einstaklingur með 325 þúsund krónur í laun á mánuði greiddi í dag 47 þúsund krónur til sveitarfélaga í formi útsvars en 20 þúsund krónur til ríkisins.

Samkvæmt skattatillögum  ríkisstjórnarinnar  lækkar hlutur ríkissjóðs í 11 þúsund krónur en hlutur sveitarfélaga er óbreyttur. 55 af 72 sveitarfélögum landsins innheimta í dag hámarks útsvar. „Ég hef ekki heyrt marga sveitarstjórnarmenn gefa því undir fótinn að sveitarfélögin fari að lækka útsvar. segir Aldís. „Sveitarfélögin hafa mjög takmarkaða og einhæfa tekjustofna sem eiga að standa undir mikilvægri grunnþjónustu við íbúa. Til þess að gera þetta höfum við útsvarið, gjöld af fasteignum, jöfnunarsjóðsframlag fyrir þau sveitarfélög sem fá það og þjónustugjöld,“ segir Aldís. „Þegar maður ber þessa tekjustofna saman við þá tekjustofna sem ríkið hefur úr að spila er himinhrópandi munur þar á. Svo ég taki sem dæmi tekjuskatt, fjármagnstekjuskatt, virðisaukaskatt, auðlindaskatt, tolla, vörugjöld, bifreiðagjald, eldsneytisgjald, ég hef ekki tölu á þeim,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .