Þorsteinn Víglundsson tók við sem félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Hann segir sveitarfélögin þurfa að gera betur hvað ástandið á húsnæðismarkaði varðar.

Fátt hefur verið meira í umræðunni en síhækkandi húsnæðisverð. Hvernig horfir ástandið við þér á þessum markaði?

„Þetta er mjög alvarlegt ástand og hættulegt að í efnahagsuppgangi eins og nú er séum við á sama tíma að búa við framboðsskort, í raun og veru lóðaskort, inni á fasteignamarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt í mínum huga að ríki og sveitarfélög nái betur utan um þennan málaflokk, það er auðvitað ein frumskylda hins opinbera að tryggja íbúum húsnæði á viðráðanlegu verði.

Núna erum við einfaldlega að glíma við þann grunnvanda að húsnæði er ekki einu sinni í boði, hvað þá á viðráðanlegu verði. Þetta á ekki að koma sveitarfélögum á óvart, það hefur lengi verið talað um mikilvægi þess að horfa lengra fram fyrir sig hverju sinni, en samt er það svo að það er mjög erfitt að nálgast upplýsingar um hvað er í byggingu á hverjum tíma og hver áformin eru hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu í náinni framtíð.

Við sjáum að þrátt fyrir áform um byggingar raungerist yfirleitt mun minna en áformað er þrátt fyrir ástandið á markaðnum í dag. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt og við erum með frumvarp í bígerð sem tekur betur utan um ráðgjafahlutverk Íbúðalánasjóðs þegar kemur að mati á væntri eftirspurn. Við viljum ekki síður aðstoða sveitarfélögin við að gera húsnæðisáætlanir hvert um sig og samræma þær áætlanir fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Eftirspurn eftir húsnæði er ekki óvænt stærð, við höfum um það bil 25 ára aðdraganda að væntri eftirspurn hverju sinni, þetta ræðst auðvitað bara af stærð árganga og það er algerlega fyrirsjáanlegt hvaða eftirspurn er í vændum. Sveitarfélögin þurfa að gera miklu betur til að tryggja að þau séu sameiginlega að mæta betur þessari eftirspurn með framboði lóða, og það hefur einfaldlega brugðist á undanförnum árum. Það er búið að byggja allt of lítið um alllangt árabil og búið að vara við því nokkuð lengi.

Annað sjálfstætt vandamál er að meðalstærð húsnæðis hefur alltaf verið að stækka í langan tíma. Undanfarinn áratug er búið að tala mjög mikið um mikilvægi þess að byggja lítið og hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk en á sama tíma hefur þróunin verið að færast í öfuga átt. Þegar við tölum um að tryggja ungu fólki húsnæði þarf það ekkert endilega að vera 100 fermetra íbúð. Það getur alveg verið mjög góð 40 til 50 fermetra íbúð sem er talsvert ódýrari, en mjög mikilvægt fyrsta skref til að komast af stað. Þess vegna settu stjórnvöld á fót sérstakan aðgerðahóp til að horfa á hvað við getum gert í lögum og reglugerðum til að ryðja úr vegi hindrunum í þessum efnum, því að þrátt fyrir fögur fyrirheit og mikla umræðu innan stjórnmálanna í hartnær áratug, hefur lítið gerst.“

Sveitarfélögin hafa vissulega völd í þessum efnum, en hvað getur ríkisvaldið gert?

„Það sem við getum gert er auðvitað að styðja sveitarfélögin betur í gerð samræmdrar húsnæðisáætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið, þannig að við séum öll að horfa að lágmarki fimm ár fram í tímann hvað varðar nýjar lóðir til að mæta væntri eftirspurn og para þannig eftirspurnina við það framboð sem sveitarfélögin þurfa að tryggja. Við þurfum auðvitað að gera sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameiginlega ábyrg fyrir því að tryggja nægt framboð, þetta er ekki vandi sem sveitarfélögin geta kastað eins og heitri kartöflu á milli sín. Því til viðbótar getum við endurskoðað húsnæðisstuðninginn þannig að hann gagnist tekjulægstu hópunum í fyrstu skrefunum inn á markaðinn. Við getum endurskoðað byggingarreglugerð til að lækka byggingarkostnað og við getum endurskoðað skipulagslög til að einfalda skipulagsferli.

Við verðum einnig að skoða þætti sem hafa verið mjög gagnrýndir, eins og hvernig sveitarfélögin standa að verðlagningu á lóðum inn á markaðinn í nýframkvæmdum. Sú verðlagning kemur mjög í veg fyrir byggingu lítilla íbúða, ýmist vegna þess að verið er að rukka fast gjald á hverja íbúð, sem eitt og sér er hvati til að byggja stærri íbúðir, eða þá að það er verið að rukka út frá hámarksnýtingarhlutfalli lóðar sem er enn og aftur hvati til að byggja stærra því það er einfaldara að fylla út í byggingarreitinn þannig heldur en með litlum íbúðum.“

Nánar er rætt við Þorstein Víglundsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .