Sænski seðlabankinn hefur ákveðið að halda stýrivöxtum áfram í -0,50%, en á sama tíma hefur bankinn boðað að magnbundinni íhlutun, það er skuldabréfakaupum bankans, verði hætt.

Jafnframt boðar bankinn að upp úr miðju næsta ári muni stýrivextir fara hækkandi á ný, en stýrivextir bankans hafa verið lægri en víðast hvar undanfarin ár, einungis Sviss er með lægri eða -0,75%.

Evrópski seðlabankinn er með þá neikvæða um 0,40% og sá japanski um 0,10%, en norski og evrópski bankinn hafa byrjað að hækka sína vexti eftir lágvaxtatímabil eftirkreppuáranna. Hagvaxtarhorfur í Svíþjóð virðast nokkuð stöðugar, efnahagurinn er í góðum gangi og atvinnuleysisstig er lágt að því er segir á heimasíðu bankans .

Helstu vandamálin virðast vera húsnæðiskreppa sem leitt hefur til lækkunar sænsku krónunnar, sem aftur virðist hjálpa bankanum að draga úr peningaprentuninni sem felst í lágvaxtastefnunni og skuldabréfakaupunum.

Þó bankinn hyggist leggja af áætlun sína um uppkaup skuldabréfa, betur þekkt sem magnbundin íhlutun, en hún hefur staðið yfir nú í um þrjú ár, verður skrefið tekið mjög hægt, því ákvörðunin felur ekki í sér að draga úr því fé sem nú þegar hefur verið sett í umferð með aðgerðunum.

Þannig verða öll skuldabréf sem renna út á gjalddaga og vextir af þeim áfram varið í frekari skuldabréfakaup. Í raun verða kaupin aukin á næsta ári og fram í byrjun árs 2019 tímabundið því byrjað verður að kaupa upp bréf í aðdraganda þess að skuldabréfaútgáfa sem er að andvirði 50 milljarða sænskra króna er á gjalddaga í byrjun árs 2019.