Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu er meðal annars greint frá því að rekstrartekjur þrettán stærstu fyrirtækja ferðaþjónustunnar hafi numið um 245 milljörðum króna, sem nemur 58% af heildartekjum greinarinnar á árinu 2017. Tekjur flugfélaganna Icelandair og Wow air vógu þar langþyngst og námu 160 milljörðum króna, sem nemur rúmum þriðjungi af heildartekjum greinarinnar.

Þá kemur einnig fram að lítil fyrirtæki með tekjur undir 500 milljónum króna, hafi myndað saman um 93% af heildarfjölda fyrirtækja í ferðaþjónustunni, en þau hafi einungis skilað um 19% af heildartekjum greinarinnar á árinu 2017. Frá árinu 2011 hafi hlutfall stórra og meðalstórra fyrirtækja sem skilað hafi hagnaði verið um og yfir 80% að meðaltali en 54% hjá litlum fyrirtækjum. Því er taprekstur mun algengari hjá litlum ferðaþjónustufyrirtækjum og í skýrslunni segir að þarna virðist vera talsvert svigrúm til hagræðingar og/eða sameiningar fyrirtækja.

Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka og höfundur skýrslunnar, segir að það gleymist oft í umræðunni um ferðaþjónustuna hvað hún einkennist af tiltölulega fáum mjög stórum fyrirtækjum og svo mjög mörgum smáum rekstraraðilum.

„Í skýrslunni erum við að draga þá ályktun að þarna sé svigrúm og ríkari tækifæri til hagræðingar. Við sjáum stærðarhagkvæmni birtast í vel flestum rekstrarmælikvörðum sem við snertum á í skýrslunni. Það virðist vera sem óhagræði sé í ríkari mæli að eiga sér stað innan lítilla fyrirtækja."

Að sögn Elvars gætu því leynst tækifæri fyrir lítil fyrirtæki að horfa til annarra fyrirtækja sem eru í svipuðum rekstri, með það fyrir augum að sameinast í eina sterkari einingu og ná þannig fram hagræði. „Það er náttúrulega þannig að greinin hefur meira verið í því að bregðast við þeim ótrúlega hraða vexti sem hún fékk í fangið. Nú virðist vera sem greinin sé á ákveðnum beygjuskilum þar sem það hefur myndast meira andrými til þess að horfa til þessara þátta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .