Svipað magn fannst af norsk-íslenskri síld innan landhelginnar og undanfarin ár og útbreiðslan er svipuð. Þetta er meðal annars ein af frumniðurstöðum í leiðangri sem farinn var á Árna Friðrikssyni, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.

Í vikunni lauk þriggja vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og kolmunna suður, austur og norður af Íslandi. Því til viðbótar var markmiðið að kanna vistkerfi sjávar með rannsóknum á átustofnum og umhverfisþáttum. Auk Íslendinga tóku þátt í leiðangrinum rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi. Niðurstöður leiðangursins eru meðal annars nýttar við stofnmat Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á norsk-íslenskri síld og til að fylgjast með langtímabreytingum á vistfræði hafsins.

Sameiginleg úrvinnsla á leiðangursgögnum skipanna fimm mun fara fram á næstu vikum og verða niðurstöður kynntar og notaðar á fundi ICES í ágúst n.k. við mat á stofnstærð og til þess að veita ráðgjöf um veiði úr áður nefndum uppsjávarfiskistofnum. Frumniðurstöður frá íslenska hluta leiðangursins sýna svipað magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar innan landhelginnar austur af landinu og undanfarin ár, eins og áður segir. Á svæðinu sunnan Jan Mayen mældist hins vegar öllu meira af síld en síðustu ár, og var þar í bland ókynþroska síld sem er óvenjulegt svona snemma árs.

Kolmunni mældist í köntunum sunnan Íslands í svipuðu magni og síðustu ár. Þar var einungis um að ræða tveggja ára fisk, eða sama árgang og var þar í mestu magni í fyrra. Við Íslands-Færeyjahrygginn var eins og tveggja ára fiskur í meirihluta, en eldri fiskur sást þó saman við ungfiskinn, sérstaklega austan til á svæðinu. Í hlýjum sjó suðaustur af Jan Mayen varð einnig vart við kolmunna, þótt þéttleikinn hafi verið mun minni en sunnar.