*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 23. september 2017 18:00

Á svipuðum stað og CCP árið 2008

Hugmyndin að Aha.is kviknaði árið 1999, fyrir hartnær 18 árum og varð að veruleika árið 2011.

Gunnar Dofri Ólafsson
Eva Björk Ægisdóttir

Helgi Már Þórðarson, annar aðaleigandi, framkvæmdastjóri og stofnandi Aha.is, segir að fyrsta áskorunin hafi verið að afla um 30.000 við­ skiptavina, sem sé lágmarksfjöldi svo að netverslun geti gengið. Í dag eru viðskiptavinir aha.is á bilinu 95.000 til 100.000. Fyrirtækið hleypti nýverið af stokkunum netverslun Nettó, sem fékk að sögn Helga mjög góðar viðtökur. Fyrirtækið vakti einnig mikla athygli þegar það notaðist við dróna við vörusendingu í sumar.

„Við póstuðum mynd þegar fyrirtækið varð sex ára þar sem sagði: „Hér erum við að reyna að búa til netverslun árið 1999,“ segir Helgi. Leiðir þeirra Helga og Marons Kristóferssonar, hins stofnandans og aðaleiganda fyrirtækisins, lágu svo aftur saman þegar þeir sáu velgengni Groupon í Bandaríkjunum 2010. „Þá ákváðum við bara að byrja á þessu. Við höfum reynt að gera þetta í rólegheitunum. Tekjurnar hafa aukist á hverju ári og viðskiptavinunum fjölgað.“ Vonast eftir hröðum vexti á næstu mánuðum Aha.is komst í fréttir í byrjun september þegar það opnaði fyrir að fólk gæti verslað við Nettó í gegnum vefverslun fyrirtækisins. Það er þó bara byrjunin.

„Við horfum á Aha sem „platform“ fyrir fyrirtæki til að koma inn með sína vöru og þjónustu og geta notið þess að við erum með tæplega 100.000 viðskiptavini. Þegar þú ert búinn að kaupa einu sinni þá ertu hálfa mínútu að kaupa aftur.“ Netverslun Nettó býður til dæmis upp á að kaupa aftur það sama og síðast. Helgi nefnir í því sambandi að um 30.000 þeirra sem versluðu við aha.is keyptu eitthvað aftur innan 90 daga. Hann segir að í hverri einustu viku sem fyrirtækið hafi starfað hafi það aðstoðað fólk sem kann lítið á netið að kaupa á netinu í fyrsta skipti. Helgi Már vonast eftir nokkuð hröðum vexti hjá fyrirtækinu á næstu 18 mánuðum. „Ég hef verið að gæla við þá hugmynd að við lok næsta árs verðum við með 100 verslanir og 150 veitingastaði. Núna eru þær 12 og veitingastaðirnir um 80.“

Á sama stað og CCP árið 2008

Of gott efnahagsástand er eiginlega það helsta sem nú hamlar vexti fyrirtækisins. „Um leið og þetta unga starfsfólk fær hundrað krónum meira á tímann þá kveð­ ur það bara á staðnum því það er ekkert atvinnuleysi og það vantar alls staðar fólk í vinnu. Þannig að við höfum ráðið töluvert mikið af útlendingum og eldra fólki, sem mér finnst mjög gott. En við værum komin miklu lengra ef þetta hefði ekki verið svona.“

Góðærið er því farið að þrengja að vexti fyrirtækisins – eitthvað sem Helgi segist heyra frá sínum samstarfsaðilum í veitingarekstri. „Þau bara geta ekki gert einhverjar sprengjur með okkur þegar eigendurnir eru vinnandi til tíu-ellefu öll kvöld til að halda rekstrinum gangandi.“ Helgi segir fyrirtækið vera á svipuðum stað og CCP var 2008, en hann var starfsmannastjóri þar þangað til hann stofnaði Aha.is.

„Þá bara þurfti að taka næstu skref og ráða algjöra toppsérfræðinga og stjórnendur. Við erum eiginlega þar núna. Núna vantar mig eiginlega góðan fjárfesti með okkur sem trúir á verkefnið og sér hvert við erum að fara.“ Þannig að þið þurfið að stækka? „Já, við þurfum bæði almennt starfsfólk í þjónustuver og bílstjóra, en ég þarf líka stjórnendur. Annars verður fyrirtækið bara áfram eins og það er og skilar ágætis hagnaði, en það er ekki markmiðið okkar. Markmiðið er að opna fleiri verslanir og þróa þetta áfram.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: netverslun Nýsköpun