Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir því að hagvöxtur verði 0,2% í Bretlandi á þessu ári og 1,4% á næsta ári. Þetta lítill hagvöxtur á árinu jafngildir stöðnun. Þetta er öllu verri hagspá en sjóðurinn birti í apríl en þá reiknaði hann með því að hagkerfið yxi 0,8% á þessu ári og um 2% á því næsta. Verði þetta raunin þá mun hagvöxtur í Bretlandi verða undir meðaltali þróaðri ríkja.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti endurskoðaða hagspá sína nýverið. Horfurnar sem þar eru kynntar eru nokkuð svartsýnni en í aprílspánni, 3,5% hagvöxtur að meðaltali á þessu árið samanborið við 3,6% hagvöxt samkvæmt aprílspánni. Að sama skapi er gert ráð fyrir 3,6% hagvexti á næsta ári hjá þeim löndum sem hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nær yfir samanborið við 4,1% í aprílspánni.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Telegraph er haft eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins, að spá um lélegan gang í efnahagslífinu næsta árið skrifist á nálægð Breta við evrusvæðið og vandræðin þar. Bretar skipta að stærstum hluta við aðildarríki evrusvæðisins og hefur útflutningur þangað dregist saman í hlutfalli við aukinn skuldavanda á meginlandinu.