Samtök verslunar og þjónustu taka undir þá gagnrýni sem ASÍ setti nýlega fram á hendur stjórnvöldum, en þar sagði m.a. að opinberar álögur hafi hækkað verðbólgu um fimm til sex prósent undanfarin ár. Í tilkynningu frá SVÞ er bent á að þann 1. mars n.k. koma til framkvæmda nýjar álögur á almenning í formi hærri vörugjalda á matvæli.

„Þessar nýju álögur, sem leggjast munu á fjölmargar algengar neysluvörur með miklum þunga, eiga að skila ríkissjóði nær einum milljarði króna í auknar tekjur. Þær eru klæddar í dulargervi sem kallaður er „sykurskattur“ og er ætlað að hafa áhrif á neysluhegðun almennings. Þessi skattahækkun ein mun leiða til þess að neysluverðsvísitalan mun hækka um 0,125%. Hinn nýi skattur mun því eins og flestir aðrir nýir skattar hafa það í för með sér að lán almennings hækka, skuldir ríkisins munu hækka og þar með ýta enn frekar undir verðbólguna, sem bæði verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hafa miklar áhyggjur af einmitt nú,“ segir í tilkynningunni.

SVÞ segja að þessi staða hljóti að verða hvatning til þess að hugsa þessi mál upp á nýtt. Nauðsynlegt sé að leita allra leiða til að slá á þá keðjuverkun kaupgjalds- og verðlagshækkana sem sé farin í gang. „Það verður ekki gert með því að semja áfram um launahækkanir sem atvinnulífið hefur ekki efni á að borga. Það verður miklu frekar gert með því að lækka tolla og önnur opinber gjöld á nauðsynjavöru og skila með því auknum kaupmætti í vasa almennings.“