Einn þekktasti Ponzi svindlari heims, Bernie Madoff, sem dæmdur var til 150 ára fangelsisdóm fyrir svindl, makar krókinn í fangelsinu. Í viðtali við MarketWatch segir blaðamaðurinn Steve Fishman, sem á í reglulegu sambandi við Madoff að svindlarinn sé að selja kakó í fangelsinu - og sé kominn með einokun á athæfinu.

Ponziflétta Madoff var metin á um 65 milljarða dollara og er álitinn einn af stærstu þjófum mannkynssögunnar. Svindlarinn dúsir nú í fangelsi í Butner, Norður-Karólínu.

„Bernie var mjög farsæll viðskiptamaður, með mikið markaðsinnsæi og hann hefur nýtt sér það í fangelsinu. Hann stundaði meðal annars einokunarverslun á kakói. Hann keypti alla pakka af Swiss Miss og seldi það með hagnaði. Ef að þú vildir kaupa kakó, þá þurftiru að fara í gegnum hann,“ er haft eftir Fishman í viðtali við Market Watch.

Það virðist því vera að hegðun Madoff hafi breyst lítið í fangelsi.