Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði fyrir helgi tvo menn af ákæru um brot gegn höfundarlögum. Mennirnir höfðu verið ákærðir fyrir að gera höfundarvarið efni aðgengilegt með því að selja „aðgangskassa“ og aðstoða fólk við að kaupa áskriftir af erlendum aðilum án þess að tilskilið gjald væri innt af hendi til rétthafa.

Þjónustuna buðu mennirnir til sölu í gegnum Facebook-síðuna IPTV sjónvarp en með henni gat fólk meðal annars fengið aðgang að Sky, Sky Sports og Movies, BBC, HBO, Cartoon Network og Disney Channel svo nokkrar stöðvar séu nefndar.

Málið barst inn á borð lögreglu árið 2017 með bréfi frá FRÍSK, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. FRÍSK hefur staðið í stappi við slíka þjónustu en í fyrra fékk félagið lögbann á IPTV Iceland.

Sjá einnig: FRÍSK fær lögbann á streymiþjónustu

Mennirnir tveir neituðu alla tíð staðfastlega sök. Mennirnir játuðu að hafa selt aðgangskassana og leiðbeint fólki með uppsetningu og haft milligöngu um áskrift að efni. Þeir hafi ekki haft neinn ágóða af áskriftargjaldinu. Vörn mannanna tveggja byggðist því á að samkvæmt reglum EES væri óheimilt að leggja skorður við að veita þjónustu sem þessa á hinum sameiginlega markaði.

Ákæruvaldið byggði á móti á því að með markaðssetningu kassanna hafi þeir ýtt undir og gert kaupendum kleift að nýta þá með ólögmætum hætti. Sú háttsemi jafngildi því að gera höfundarréttarvarin verk aðgengileg með því að miðla þeim til almennings í skilningi höfundarlaga.

Slíkir kassar seldir í raftækjaverslunum

Dómur dómstóls Evrópusambandsins frá 2017 hafði lykiláhrif í málinu. Í málinu hafði aðili komið forritum og búnaði fyrir á aðgangskassanum áður en hann var seldur. Þau forrit gerðu kaupendum kleift að nálgast efni með ólögmætum hætti án þess að greiða fyrir það. Kassarnir voru markaðssettir með þeim hætti að þeir færðu fólki ólögmætan aðgang.

„Eins og málið liggur fyrir dóminum eru ákveðin atriði er varða refsinæmi verknaðarins óljós eða ósönnuð. Ekki var lagt hald á búnaðinn eða hann rannsakaður, þó ekki verði annað ráðið en að vitni hafi haft hann undir höndum. Þá verður ekki séð að gerð hafi verið tilraun til þess að óska eftir því að ákærðu sýndu hvernig þeir höguðu aðstoð sinni við áskriftir og þannig upplýsa um hversu langt hún hafi í reynd gengið. Hefur það að mati dómsins verulega þýðingu,“ segir í niðurstöðu dómsins. Vafinn var metinn hinum ákærðu í hag.

„Sala aðgangskassa á borð við þessa þekkist á Íslandi. Það er til að mynda hægt að kaupa þá í raftækjaverslunum. Það að það sé ráðist að umbjóðendum mínum með þessum hætti er að mínu viti sérstakt,“ segir Lárus Sigurður Lárusson verjandi mannanna.

„Í dómi Evrópudómstólsins var upplýst að sá sem seldi kassana var búinn að niðurhala auka búnaði í þá og ýta undir brot. Það var ekkert um slíkt að ræða í þessu máli. Dómurinn fellst á það með okkur að sala kassanna ein og sér sé ekki ólögmæt enda höfðu þeir ekkert um það að segja hvernig kaupendur nýttu sér þá,“ segir Lárus.

Málskostnaður, tæpar 900 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði.