Bændur í Evrópusambandinu eru farnir að framleiða sykurrófur í auknum mæli í kjölfar þess að nú mega þeir framleiða án takmarkana og selja á heimsmarkaði.

Takmarkanir í heilan áratug

Í heilan áratug hefur sambandið haldið úti miklum takmörkunum á framleiðslu og útflutningi sykurs frá álfunni, en í mánuðinum eru bændur að hefja sáningu í fyrsta sinn sem ekki lýtur þessum takmörkunum.

Á árunum 2005 til 2006, áður en takmarkanir voru settar á framleiðsluna, framleiddu lönd Evrópusambandsins 18,9 milljón tonn af sykri og fluttu út 7,4 milljón tonn.

Sykurrófur eru notaðar til að framleiða um fimmtung af sykurframleiðslu heimsins, en þó sykurreyr sé ódýrara hráefni, þá getur sykur framleiddur úr sykurrófum verið samkeppnishæfur þegar heildarkostnaðurinn við framleiðsluna er tekinn í reikninginn að því er segir í frétt CNBC um málið.

Takmarkað vegna of mikilla niðurgreiðslna

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spáði því að framleiðslan á tímabilinu 2016 til 2017 sem nú er að klárast, myndi ná 16,6 milljón tonnum.

Framleiðslan nú er talin í mörgum löndum geta aukist um allt að fimmtung, til að mynda í Frakklandi sem er stærsti framleiðandinn, en nú verða bændur að búa við meiri óvissu um verð, sem nú geta bæði farið lækkandi og hækkandi, en áður tryggði sambandið ákveðið grunnverð.

Bændur í Evrópusambandinu segjast nú vera tilbúnir að keppa á heimsmarkaði, eftir að greinin fór í gegnum mikla endurskoðun, í kjölfar úrskurðar alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um að sambandið niðurgreiddi sykurframleiðsluna. Á tímabilinu fór sambandið úr því að flytja út um þriðjung af framleiðslu sinni í það að fara að flytja inn sykur.