Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lauk aðfararviku páska með 0,35% hækkun síðasta viðskiptadaginn, eftir lækkun síðustu daga, og fór hún í 1.924,66 stig. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 1,6 milljarði króna, en mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 268 milljónir króna.

Jafnframt var lækkun bréfa í bankanum sú næstminnsta í kauphöllinni í dag, eða um 1,17%, niður í 76,00 krónur. Mesta lækkunin var hins vegar á bréfum Haga, eða um 1,99% í 42 milljóna króna viðskiptum. Nemur gengi bréfanna í lok dags nú 43,13 krónum.

Mesta hækkunin í viðskiptum dagsins var á gengi bréfa Sýnar, eða um 2,19% í 54 milljóna viðskiptum, og fóru þau upp í 32,60 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Vís, eða um 1,52%, upp í 12,71 krónu, í 39 milljóna króna viðskiptum.

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema evrunni sem stóð í stað, en mest þógagnvart svissneska frankanum. Veiktist hann um 0,34% og fæst hann nú á 18,104 krónur. Næst mest veiktist breska pundið, eða um 0,26%, niður í 155,94 krónur. Bandaríkjadalur veiktist svo um 0,10%, og fæst hann á 119,62 krónur eftir viðskipti dagsins.