Sýn hf. hefur í dag sent Símanum hf. bréf með kröfu um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem Sýn hf. telur sig hafa orðið fyrir vegna þeirra aðgerða sem Póst- og fjárskiptastofnun hefur komist að niðurstöðu um að hafi falið í sér og feli enn í sér brot á 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Samkvæmt ákvörðuninni beindi Síminn hf. með ólögmætum hætti viðskiptum viðskiptamanna fjölmiðlaveitu Símans hf., Skjái Einum og síðar Sjónvarpi Símans, að tengdu fjarskiptafyrirtæki, Símanum hf. og Mílu hf. Sjá ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 10/2018 frá 3. júlí 2018.

Sýn hf. krefst í bréfinu bóta fyrir (a) það tjón sem félagið telur sig þegar hafa orðið fyrir á tímabilinu 15. okt. 2015 til 30. júní 2018 eða sem svarar til 1.908.108.958 króna, (b) það tjón sem félagið telur sig enn verða fyrir, og (c) það tjón sem félagið telur sig eiga eftir að verða fyrir á tímabilinu frá því að Síminn hf. lætur af brotinu og þar til Sýn hf. hefur unnið til baka þau viðskipti sem hafa tapast vegna brots Símans hf., en félagið telur fjárhæð þess ekki lægri en núvirði þess tjóns sem nú þegar er orðið.

Sýn hf. hefur gefið Símanum hf. 15 daga frest til að láta af broti sínu og gera upp skaðabætur miðað við þær forsendur sem krafa Sýnar hf. miðar við. Sýn hf. hefur upplýst Símann hf. um að bregðist Síminn hf. ekki við til samræmis megi búast við að Sýn hf. höfði mál án frekari fyrirvara til heimtu bóta vegna tjónsins sem telst orðið 30. júní 2018 og áskilið sér allan rétt til höfðunar frekari mála vegna þess tjóns sem síðar kemur fram eða ekki telst enn ótímabært að meta. Reynist Sýn hf. nauðsynlegt að höfða mál til heimtu krafna sinna kemur að endingu í hlut dómstóla að dæma um þær.