Baldur Már Helgason, nýráðinn framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Eyja, er verkfræðingur frá Háskóla Íslands en hann hefur starfað í fjármálageiranum nánast samfleytt frá útskrift.

„Ég var fyrst átta ár hjá Íslandsbanka, þar sem ég fékk að færa mig reglulega á milli deilda og landa og öðlaðist ég dýrmæta reynslu þar á mjög fjölbreyttum sviðum, bæði í lánamálum og fjárfestingum,“ segir Baldur Már sem meðal annars starfaði fyrir bankann í Kaupmannahöfn og New York.

„Þetta var mjög sérstakur tími sem ég var þarna úti, eða árin 2005 til 2008, mikið að gerast og hlutirnir breyttust hratt, en það var mjög lærdómsríkt að vinna með fólki alls staðar að úr heiminum.“

Það var í Danmörku sem Baldur kynntist Birgi Bieltvedt og konu hans, Eygló Björk Kjartansdóttur, en Eyja, fjárfestingarfélag þeirra hjóna, á meirihluta í Gló, þar sem Baldur verður einnig framkvæmdastjóri, og Joe and the Juice á Íslandi, og í Jubileum sem á síðan Snaps, Jómfrúna og nú Kaffi París sem verið er að endurnýja, auk rúmlega fimmtungshlutar í Dominos á Íslandi sem aftur á meirihluta í Dominos í Noregi og Svíþjóð.

„Dominos er að vaxa mjög hratt í Noregi, en þar er búið að opna 12 staði á tæpum tveimur árum og á eftir að opna þar marga staði til viðbótar, auk þess sem fyrsti staðurinn var opnaður í Svíþjóð fyrir tveimur vikum,“ segir Baldur Már.

Baldur Már er kvæntur og á þrjú börn og segir hann tímann utan vinnunnar að mestu fara í einhvers konar útivist með fjölskyldunni, helst þá hjólreiðar eða skíði.

„Ég ólst upp á Akureyri og förum við þangað nokkrum sinnum á ári bæði til að fara á skíði og hjóla um Kjarnaskóg og Hlíðarfjall,“ segir Baldur Már.

„Í fyrra keppti ég svo í þríþraut sem heitir Escape from Alcatraz, þar sem synt er frá Alcatraz-eyjunni í land, um tvo og hálfan kílómetra, síðan hjólað einhverja 30 kílómetra og svo hlaupið einhverja 15 kílómetra í borginni. Þetta var skemmtileg þolraun.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .