Eftir að Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands lýsti því yfir að sýrlenskir flóttamenn í landinu gætu á endanum fengið tyrkneskan ríkisborgararétt virðist vera sem margir Tyrkir sem hingað til hafa tekið flóttamönnum opnum örmum séu með efasemdir um stefnu forsetans.

Ekki með stöðu flóttamanna

Í landinu dvelja nú meira en 2,7 milljónir sýrlenskra flóttamanna, en þeir hafa ekki fengið stöðu flóttamanna, einungis álitnir gestir í landinu hingað til.

Um 10% þeirra búa í 20 flóttamannabúðum um landið allt, en restin býr í borgum landsins, oft við bág kjör.

Eykur löghlýðni

Ibrahim Kavlak frá samtökum um stuðning við flóttamenn segir þetta ýta undir að flóttamenn hlýti lögum og reglu í von um að geta fengið ríkisborgararétt. „Ég held þetta myndi einnig draga úr freistingunni meðal flóttamanna að ferðast til Evrópu,“ hélt hann fram.

Evrópusambandið og Tyrkland náðu samkomulagi í mars síðastliðnum um að Tyrkland myndi takmarka flæði flóttamanna í gegnum landið til Evrópu. Í staðinn hyggst sambandið gefa Tyrklandi um 6 milljarða evra til að bæta lífskjör flóttamanna í landinu.

Einungis 10% stuðningur við tillögu

Jafnframt vill Tyrkland fá auðveldara aðgengi fyrir þegna sína til Evrópu, en Murat Edogan érfræðingur í málefnum flóttamanna segir það hvort tveggja vera í hættu ef nafni hans forsetinn nær sínu fram. „Ef við gefum hverjum og einum Sýrlendingi tyrkneskt vegabréf og segjum við þá að nú getir þeir ferðast til Evrópu, hvernig eiga Evrópubúar að geta ráðið við það?“ spyr hann.

Skoðanakannanir sýna að einungis 10% Tyrkja styðja að gefa eigi flóttamönnunum ríkisborgararétt. Telja sumir þetta vera aðferð forsetans til að tryggja sér tryggan kjósendahóp í kosningum í framtíðinni, þar sem þess er vænst að hann fari fram á stjórnarskrárbreytingar sem færi honum meiri völd.