Rekstrarafkoma fjögurra stærstu golfklúbba landsins versnaði á síðasta rekstrarári. Fjórði stærsti golfklúbbur landsins, Golfklúbburinn Oddur, var rekinn með tapi. Tekjur fjögurra stærstu golfklúbbanna voru 63 milljónum króna umfram útgjöld rekstrarárið 2014, en aðeins 21 milljón umfram útgjöld á síðasta ári.

Fjárhagsstaða golfklúbbanna er missterk. Golfklúbbur Reykjavíkur skuldaði 109 milljónir króna í yfirdrátt í lok október síðastliðins og jókst yfirdráttarskuldin um 27 milljónir milli ára. Keilir skuldaði hins vegar aðeins 8,7 milljónir á tékkareikningi og GKG hafði engar skammtímaskuldir við lánastofnanir. Golfklúbbur Reykjavíkur hafði mest eigin fé klúbbanna í lok október, eða 786 milljónir króna.

Fjölgun kylfinga hætti skyndilega

Á árunum 2008-2012 fjölgaði kylfingum í aðildarfélögum Golfsambands Íslands nokkuð hratt. Árið 2013 hætti sú þróun skyndilega og hefur kylfingum nú fækkað þrjú ár í röð. Þegar kylfingarnir voru flestir árið 2012 voru þeir 16.641 talsins en á síðasta ári voru þeir 16.263. Fækkunin nemur 2,3 prósentum á þessum þremur árum.

Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG), rekur fækkun kylfinga til slæms veðurfars árin 2013 og 2014. „Það var ótíð. Við vorum búin að vera með gríðarlega góð sumur árin á undan, nánast Flórída-veður. Svo koma tvö sumur í röð sem eru ekki góð og vellirnir hreinlega hálfónýtir,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .