Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar segir þolinmæði og langtímahugsun þurfa til að vera í sjávarútvegi.

„Það er mikil eftirvænting hjá okkur og tilhlökkun að fá þetta góða skip heim,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar.

Ísfisktogarinn Páll Pálsson er væntanlegur heim frá Kína nú á vordögum ásamt systurskipi sínu, Breka VE, sem Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum bíður jafn spennt eftir að geta tekið í notkun.

„Það er ekki á hverjum degi sem við fáum nýjan togara til Ísafjarðar,“ segir Einar Valur. „Síðast gerðist það árið 1989 þegar við fengum Júlíus Geirmundsson.“

Það má því búast við að mikið verði um dýrðir í bænum þegar nýja skipið kemur. Páll Pálsson verður burðarásinn í landvinnslu fyrirtækisins og markar mikilvæg tímamót.

Lagt af stað um helgina
Smíði og þar með afhending skipanna tveggja hefurdregist mikið. Smíðin hófst í apríl 2015 í Rongcheng skipasmíðastöðinni og skipin voru sjósett þar ári síðar. Frekari vinnu þurfti þó að inna af hendi og hafa starfsmenn íslensku fyrirtækjanna verið úti í Kína allan tímann til að fylgjast með.

„Það er verið að smíða skip til langs tíma og óþarfi að fara á límingunum þótt einhverjar tafir verði,“ segir Einar Valur. „Það þarf þolinmæði til að vera í sjávarútvegi. Þetta er langhlaup hjá okkur. Fyrirtækið hefur verið starfandi síðan 1941.“

Skipin tvö eru sömu gerðar að grunni til, hafa verið smíðuð samhliða og verða bæði afhent á sama tíma.

„Við vonumst til að skipið haldi af stað frá Kína nú um helgina,“ segir Einar Valur. Siglingin heim segir hann að taki um það bil fimmtíu daga, þótt munað geti nokkrum dögum til eða frá. Síðan tekur það nokkrar vikur að ganga frá búnaði á millidekki um borð.

Hraðfrystihúsið Gunnvör og Vinnslustöðin hafa haft samvinnu um hönnun og smíði skipanna. Hönnun þeirra er íslensk og hófst hún strax árið 2014 þannig að fjögur ár eru nú liðin frá því upphaflega var farið af stað. Ákveðið var að taka hagstæðu tilboði í smíðina frá Kína og upphaflega stóð til að skipin yrðu afhent síðla sumars 2016.

Tekur við af nafna sínum
„Þetta gekk allt mjög vel framan af en síðan hefur verið eitthvað vesen og tafir sem við skiljum ekki alveg,“ segir Einar Valur, en lætur það þó ekki á sig fá.

Páll Pálsson tekur við af eldri nafna sínum, 45 ára gömlu skipi sem var fyrsti skuttogari fyrirtækisins. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum keypti það skip á síðasta ári af fyrirtækinu og gaf því nafnið Sindri VE.

Skipin tvö eru 50,7 metra löng og 12,8 metrar að breidd. Sjö manna áhöfn verður á Páli Pálssyni á heimsiglingunni.

Hraðfrystihúsið Gunnvör á sér 87 ára langa sögu, var stofnað árið 1941 í Hnífsdal og var Páll Pálsson fyrsti formaður stjórnar félagsins. Nýja skipið er hið fjórða í eigu fyrirtækisins sem ber nafn hans.

Auk útgerðar rekur fyrirtækið bolfinnskvinnslu í Hnífsdal og aðra vinnslu á Ísafirði.