Talsverð værðmæti gætu verið fólgin í því að reisa fleiri smájarðvarmavirkjanir á Íslandi, að mati sviðsstjóra hjá Mannviti. Fáar slíkar virkjanir eru á Íslandi, en talið er líklegt að þeim muni fjölga á komandi árum.

Smájarðvarmavirkjanir eru virkjanir sem nýta jarðhita til framleiðslu á innan við 10 megavött á ári af raforku fyrir raforkuvinnslu, hitaveitu, iðnað og til baða. Slíkar virkjanir geta verið sjálfstæðar lágvarmavirkjanir eða viðbætur við stærri virkjanir og dreifikerfi þeirra, þá sem holutoppsstöðvar eða frárennslivirkjanir.

Lágvarmavirkjanir eru reistar sérstaklega til að nýta sjóðandi lágvarma sem ekki er nýttur af annarri virkjun. Ein slík er á Húsavík, en er þó ekki í rekstri. Í febrúar síðastliðinn gekk jarðvarmafyrirtækið Varmaorka frá fyrsta áfanga fjármögnunar og kaupa á búnaði undir lágvarmavirkjanir hér á landi, en verið er að reisa slíka virkjun á Flúðum.

Frárennslisvirkjanir nýta þá afgangsgufu og það frárennslisvatn sem ekki er nýtt í stórri jarðvarmavirkjun. Dæmi um slíka virkjun er Vél 11 á Hellisheiði, sem þó flokkast ekki undir smájarðvarmavirkjun.

Loks eru holutoppsstöðvar settar upp nærri borholuteig til að nýta háan þrýsting – sem annars væri felldur – sem fyrst, án þess að nýtnin sé hámörkuð, en slíkar stöðvar eru ekki reistar til langs tíma og eru flytjanlegar milli borteiga. Endurnýjun Green Energy Group á Bjarnarflagsvirkjun er dæmi um slíka stöð.

Raforkuverð ræður hagkvæmninni

Kristinn Ingason, sviðsstjóri jarðvarmavirkjana hjá Mannviti, segir að það geti verið hagkvæmt að reisa smájarðvarmavirkjanir á Íslandi.

„Gæði landsins eru þannig að Ísland er ríkt af endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við fljótandi vatn, sjávarföll og jarðhita, og ódýrt er að virkja þessa orku. Svo er mikil samlegð fólgin í því ef rafafl og hiti er virkjaður saman. Þar sem hluti mannvirkja og búnaðar samnýtist við samrekstur rafstöðvar og hitaveitu verða verðmætin meiri, þar sem hægt er að framleiða raforku og heitt vatn. Loks er hagkvæmt að reisa svona virkjanir nálægt byggð á svæði sem er ekki jafn óraskað og viðkvæmt eins og ósnert svæði. Þá er stutt í vegi, lagnir og raflínur, sem lækkar kostnað,“ segir Kristinn.

Hann bætir því við að ekki er krafist umhverfismats á virkjunum sem framleiða innan við 10 megavött af raforku. „Það er því auðveldara að fá leyfi fyrir smájarðvarmavirkjunum heldur en stærri virkjunum,“ segir Kristinn.

Sem dæmi um hugsanleg verðmæti í tengslum við smájarðvarmavirkjun gerði Mannvit verðmat á borholum í Ölfusdal. Samkvæmt verðmatinu felast mikil tækifæri í að virkja jarðhitavökvann í Ölfusdal og nýta til raforkuvinnslu, húshitunar og fyrir iðnaðarferla. Þannig myndu 9 megavatta rafstöð, 15 megavatta hitaveita og jarðböð gefa verðmæti upp á milljarð króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .