Blómleg útgerð og iðandi mannlíf einkenndi sjávarþorpin umhverfis landið fyrir nokkrum áratugum. Þetta breyttist hratt eftir að kvótakerfið var tekið upp en Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir þó vart hægt að skella allri skuldinni á kvótakerfið.

„Sjávarbyggðirnar hafa alltaf verið i örum breytingum. Það var aldrei til nein gullöld sem hafði verið óbreytt í langan tíma. Alveg frá upphafi hefur þetta verið í stöðugum breytingum,“ segir Þóroddur.

Hann segir mörg af sjávarþorpunum í kringum landið hafa byggst upp þegar fólk flutti úr nærliggjandi sveitum beina leið niður að sjó.

„Þú gast stofnað fjölskyldu í sjávarþorpunum og lifað góðu lífi án þess að yfirgefa heimahagana. Það var líka þannig að vinnuaflið nýttist í báðar áttir. Á ákveðnum tíma kemur fólk úr þorpunum og gengur í verkin í sveitinni, og á ákveðnum tímum kemur fólk úr sveitinni í þorpin.“

Þorpin verða síðan miðstöðvar flutninga, bæði vöruflutninga og fólksflutninga, og þar rísa verslanir, sláturhús og iðnaðarfyrirtæki.

„Þannig að þegar þorpin eru upp á sitt besta þá er fiskurinn vissulega mikilvægur, og víðast mikilvægastur, en hann er samt bara eitt af mörgu.“

Ósjálfbæra augnablikið
Þróunin verður síðan sú að smám saman fer að fjara undan öðrum þáttum en sjávarútvegi.

„Það fer að fækka í sveitunum, fólksflutningar hætta, kynslóðabilið trosnar og samgöngurnar á landi fara að batna upp úr seinna stríði. Það þýðir að þjónustan fer að þjappast saman, verslunin þjappast saman og iðnaðurinn líka. Það verður færra og færra sem stendur undir sjávarþorpunum annað en sjávarútvegur.“

Loks kemur skuttogaravæðingin ofan í þessa þróun og gerir, að mati Þórodds, ástandið í raun svolítið verra: „Hún ýtir undir mikla fólksfjölgun utan höfuðborgarsvæðisins og mikla fjárfestingu en það var ekki sjálfbært. Þannig að þegar kvótakerfið kemur þá getum við sagt að eitthvað hafi þurft að gerast. Það var búið að byggja upp of mikið. Það var of mikið af fiskiskipum. Það var of mikið af frystihúsum. Og auðlindin stóð ekki undir þessu.“

Þessi stutti tími í sögu þjóðarinnar, þegar sjávarbyggðirnar stóðu i sem mestum blóma, geti því engan veginn verið sú viðmiðun sem horfa þurfi til.

„Þetta augnablik var ekki sjálfbært,“ segir Þóroddur.

Of mörg stór þorp
„Að því sögðu þá auðvitað þurfti að gera eitthvað og það hefði mátt gera ýmislegt,“ bætir hann við. „Þegar kvótakerfið er sett á er eiginlega ekkert tillit tekið til þorpanna. Það er hugsað um sjálfbærni auðlindarinnar og það er hugsað um rekstraröryggi fyrirtækjanna, en í rauninni mjög lítið í sjálfu sér hugsað út í að af þessu muni leiða samþjöppun. Ég held að menn hafi samt vel vitað að á þessum árum hafi stóru þorpin verið of mörg.“

Aldrei gerðist samt það að menn stöldruðu við til að skoða hagsmuni þorpanna sérstaklega og jafna hann út á móti rekstrarhagsmunum fyrirtækjanna.

„Auðvitað hefði mátt setja upp kerfi sem hefði verið þorpunum hagstæðara. Hefði það orðið rekstrarlega verra? Ekkert ólíklegt. Hefði það orðið verra fyrir auðlindina? Maður veit það ekki, það fer eftir því hvernig það hefði verið gert.“

Hann segir innleiðingu kvótakerfisins vissulega haft áhrif á byggðaþróun í landinu.

„Allar ákvarðanir sem þú tekur hafa náttúrlega afleiðingar. Auðvitað eru til staðir sem hafa tapað frá sér vinnslu og heimildum. Staðir sem hefur hnignað og eru ekki lengur sjávarþorp. Hafa misst frá sér heimildirnar og ekkert annað komið í staðinn. Aðrir staðir hafa farið betur út úr kerfinu fram til þessa en standa engu að síður frammi fyrir þeirri óvissu að mikilvægur atvinnuvegur gæti horfið á augabragði.

Út úr einangrun
Staðan í smærri bæjum og þorpum umhverfis landið er hins vegar með ýmsu móti og alls ekki hægt að setja þau öll undir sama hatt.

„Til eru dæmi um þorp og bæi sem einu sinni voru einangruð en eru núna partur af stórum þjónustusvæðum. Slíkir staðir eru þannig að jafnvel þó þeir myndu missa allan kvóta að það er ekki upp á líf eða dauða að tefla fyrir samfélagið. Sjávarútvegurinn þá ein stoðin, svolítið eins og það var áður, og hann getur verið mikilvæg stoð en ef hann bregst þá er að öðru að hverfa.“

Samgöngubætur um land allt hafa haft miklar breytingar í för með sér. Ferðaþjónustan hefur líka breytt miklu á mörgum stöðum.

„Á sumum svæðum á landinu getur verið að eitthvað annað hafi komið i staðinn og þar sé samfélagið þess vegna bara sterkara heldur en var. En svo getum við auðvitað bent á staði, þar sem er ekki að neinu öðru að hverfa í augnablikinu. Þau liggja kannski illa við túrisma og það er alltof langt að fara í vinnu eitthvað annað. Ef við förum hringinn í kringum landið og teljum þau þá eru þau ekkert svo mörg. Þau eru svona tólf. Í raun má síðan segja að þarna séum við með kannski bara pólitíska eða heimspekilega spurningu um það hvort við viljum segja að þessi þorp eigi rétt á því að vera til.“ Ef svarið er já, þá ættum við að nálgast það sem verkefni með skýrt skilgreind og mælanleg markmið þannig að við getum metið árangurinn.

Nagandi óvissa
Þóroddur segir kvótakerfið vissulega eiga sinn þátt í erfiðleikum þeirra staða sem ekki hafa haft að neinu öðru að hverfa en sjávarútvegi.

„Í öllum þessum þorpum er nagandi óvissa. Ætli menn fari að kaupa sér hús eða setja á fót verslun ef þeir vita fyrirfram að atvinnugrundvöllurinn gæti horfið yfir nótt?“

Þær mótaðgerðir sem gripið hefur verið til segir Þóroddur vera afar ómarkvissar.

„Við erum með byggðakvótann, sérstaka byggðakvótann, skelbæturnar, strandveiðarnar, línuívilnunina. Það eru þessi fimm prósent sem eru tekin frá til þess að vinna gegn neikvæðum afleiðingum kvótakerfisins. En í raun erum við með þessu nú þegar búin að taka til hliðar það miklar heimildir að við gætum alveg tryggt þessi þorp í fyrirsjáanlegri framtíð. Við þyrftum bara að skilgreina betur hvert markmiðið er.“

Stuðningurinn við þessar sjávarútvegsbyggðir hefur einkum snúist um viðbrögð eftir á.

„Það er þannig að ef skip er selt frá staðnum þá kemur inn byggðakvóti samkvæmt excel-skjalinu og smám saman trappast hann niður. Sárasta höggið er tekið af, en það er ekki þannig að það sé hægt að byggja upp arðbæra vinnslu á litlum kvóta sem síðan minnkar og minnkar þangað til hann hverfur.“

Upp á von og óvon
Þarna er hins vegar, að sögn Þórodds, verið að útdeila verðmætum án þess að hafa sett það almennilega niður fyrir sér hvað menn vilji fá út úr þessum aðgerðum.

„Frekar en að henda verðmætum út og sjá síðan bara til þá þyrftum við að segja hvernig við viljum að staðan verði eftir til dæmis tíu ár. Og svo verðum við að fylgjast með því hvort það gerist,“ segir hann.

„Auðvitað hefur byggðakvótinn haft jákvæð áhrif. Á sama hátt og það myndi hafa jákvæð áhrif að fljúga yfir í flugvél og henda út peningum. Það myndi auðvitað hafa jákvæð áhrif, en það væri ekki mjög markviss nýting á fjármunum.“

Að mati Þórodds hefur byggðakvótinn samt að sumu leyti virkað öfugt við það sem stefnt hefur verið að. Hann hefur hreinlega komið að nokkru í veg fyrir að þessi þorp geti þróast.

„Aflamark er núna skráð á yfir sextíu stöðum á landinu. Við vitum að það verða ekki svona margir virkir útgerðarstaðir í framtíðinni, því það er svo margt sem er að breytast. Sumir þessara staða eiga möguleika á því að finna sér aðra framtíð. Aðrir staðir eiga það kannski ekki. Það sem við ættum að gera er að hvetja þá staði sem geta til að finna sér aðra framtíð. Meðan byggðakvótanum er haldið inni eins og nú er þá í rauninni er unnið gegn gegn því.“

Hann nefnir sem dæmi að ef sjávarþorpi er úthlutað til dæmis 150 tonn í byggðakvóta þá fylgir því vinnsluskyldu.

„Þá verður að vinna hann á staðnum, og menn reka ekkert arðbæra vinnslu fyrir svona lítið en verða samt að gera það. Því annars er þetta bara tapað fé.“ Það eru ýmis dæmi um að farið sé á svig við reglur um byggðakvóta hreinlega vegna þess að dæmið gengur ekki upp eins og lagt er upp með það.

Sveigjanleiki og stöðugleiki
Þóroddur bendir á aðrar leiðir sem hægt væri að fara við úthlutun byggðakvóta. Bæði þurfi meiri sveigjanleika og meiri stöðugleika en núverandi kerfi býður upp á. Hann nefnir sem dæmi svæði með nokkrum þorpum sem ekki er mjög langt á milli, eins og sjá má í sumum landsbyggðum. Í sumum þessara þorpa sjái menn tækifæri til ferðaþjónustu, en annars staðar ekki.

„Segjum að þeir séu með 150 eða 200 tonn í byggðakvóta, og það er verið að reyna að finna einhverja leið til að nýta hann. Hvað ef við hefðum þá kerfi þar sem við úthlutum þessum kvóta til segjum 20 ára á grundvelli sögunnar og þess að byggðarlögin hafi borið kostnað af hagræðingu í sjávarútvegi, og hann megi menn nýta til byggðaeflingar án þess að vera bundinn við að byggja upp í sjávarútvegi. Til dæmis væri hægt að semja við næsta þorp um að þeir fái kvótann en við fáum pening á móti sem fer þá í skýrt skilgreind verkefni. Til dæmis í að byggja upp ferðaþjónustu, og það verði þá fylgst vel með því.“

Víða skiptir kannski ekki öllu máli fyrir sjómenn nákvæmlega hvar er lagt upp, ef það yrði innan sameiginlegs vinnusóknarsvæðis.

„Svo gæti líka verið að á einhverjum stað myndu menn segja: Við höfum engar forsendur fyrir vinnslu hérna en við myndum vilja hafa öfluga smábátaútgerð. Þá gæti byggðaþróunarverkefnið virkað þannig að þessi tonn sem við erum geti menn bara leigt þau af okkur fyrir smábátaútgerð hérna á staðnum og þeir mega landa hvar sem er á svæðinu. Það er hægt að setja skilyrði um lögskráningar eða stærð á bátum eða hvað menn vilja. Það væri þá líf á höfninni og menn byggju á staðnum og það kæmu þá einhverjir peningar inn sem hægt er að nýta eitthvað og einhver lítil vinnsla sem hangir á horriminni vegna þess að hún er ekki með nóg hráefni fengi viðbót.“

Sífellt hraðari tæknivæðing og sérhæfing breyti líka því hvers konar störf eru í boði.

„Það getur ekki verið markmiðið að búa til byggðasöfn úr samfélögunum. Samfélög hafa alltaf verið að breytast og þau munu halda áfram að breytast. Það sem við verðum að gera er að tryggja þeim andrými og svigrúm til þess að þróast. Það getum við gert ef við ákveðum að taka út óvissuna og nota þessi verðmæti þar sem þeirra er þörf. Setja markmið fyrir hvern stað fyrir sig, en ekki sama markmið fyrir alla.“

Tækifæri til sátta
Umræðan um kvótakerfið hefur lengi verið föst í gömlum skotgröfum. Þóroddur segir augljóst að það myndi hjálpa ef menn kæmust aðeins upp úr þeim.

„Annars vegar segja menn: Við eigum bara að leggja niður kvótakerfið og þá verður allt eins og það var 1970. Hins vegar segja menn að útgerðin beri bara enga ábyrgð á þessu. Það sé bara ríkið sem á að sjá um byggðamál. Og það verður bara stál í stál. En ég held að þarna sé samt dauðafæri til að skapa sátt,“  segir hann.

„Auðvitað er hægt að fara bara í vörn og segja að sjávarútvegurinn beri enga ábyrgð á þorpunum, það sé bara málefni ríkisins. En það væri líka hægt að segja að þessi þorp hafi byggst upp á sjávarútvegi og með kvótakerfinu hafi tekist að gera sjávarútveginn arðbæran. Það hafi samt líka haft neikvæðar afleiðingar og þá skulum skulum bara nota þessi fimm prósent til að hjálpa þessum byggðarlögum sem hafa orðið illa úti.“

Hann segir þennan djúpstæða ágreining auðvitað ekkert ákjósanlegt ástand fyrir útgerðina heldur.

„Þetta ástand sem hefur skapast í þorpunum grefur svolítið undan lögmæti kerfisins, því í hverjum einustu kosningum segja einhverjir bara: Nú leggjum við þetta af. En ef það væri hægt að taka fimm prósent af heildaraflaheimildunum til þess að takast í alvöru á við vanda þorpanna þá held ég að menn ættu ekkert að sjá eftir því.“