Miklar hækkanir hafa orðið á hlutabréfaverðum í Bandaríkjunum það sem af er degi. Í frétt Reuters eru hækkanirnar tengdar við lækkun stýrivaxta og bindiskyldu í Kína, en í morgun lækkaði kínverski seðlabankinn stýrivexti í sjötta sinn á innan við ári. Nasdaq-vísitalan hefur hækkað um 1,8%, en það eru tæknifyrirtæki sem hafa hækkað mest.

Tæknifyrirtækin Microsoft, Alphabet og Amazon hafa rokið upp í verði í dag. Amazon hefur hækkað um 7%, en afkoma fyrirtækisins var kynnt í gær og var vel umfram væntingar fjárfesta. Það sama á við um Microsoft, en verð hlutabréfa fyrirtækisins hefur hækkað um heil 10,3% í dag. Alphabet, móðurfélag Google, hefur einnig hækkað mikið eða um 7,6%.

Apple hefur hækkað um 2,7%, Facebook um 2,3% og Twitter um 2,8% það sem af er degi.

Í frétt Reuters er haft eftir Tim Courtney, fjárfestingarráðgjafa hjá Exencial Wealth Advisors, að þessi misserin séu það tæknifyrirtæki sem standi sig best í því að auka tekjur sínar.