Líkt og fram kom í viðtali Viðskiptablaðsins við Hilmar Veigar Pétursson, vill hann sjá að stjórnvöld afnemi þök á endurgreiðslur fyrirtækja fyrir kostnað sem fer í rannsóknir og þróun á hugverkum.

Hugverkasköpun frá landnámi

„Við megum ekki tapa sjónar á því að sköpun hugverka hefur átt sér stað á Íslandi í þúsund ár, alveg síðan við skrifuðum Snorra-Eddu og Íslendingasögurnar, sem eru að einhverju leiti hugverk, og síðan getum við spólað áfram til Bjarkar og Eve Online,“ segir Hilmar Veigar sem vill færa umræður um hugverk á hærra plan.

„Hugverk eru ekki bara geisladiskar og bækur, heldur á það líka við um EVE Online, bíómyndir og annað slíkt.“

Eignarrétturinn mikilvægur en tæknilausnir leysa viðskiptavandamál

Aðspurður tekur Hilmar Veigar undir mikilvægi eignarréttarins á hugverkum þó hann nefni nýjar lausnir í baráttunni við ólöglegt niðurhal.

„Oft á tíðum er hægt að leysa viðskiptavandamál með tækni,“ segir Hilmar Veigar.

„Ég hvet til nútímalegra leiða til að halda utan um þann eignarrétt og sjá til þess að þeir sem búi hugverkin til græði á þeim pening. Það eru til margar góðar tækniútfærslur á því, sem við höfum öll séð vera að þróast.“