Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, fagnar því að Ólafur Örn Nielsen, framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Kolibri, stigi fram og orði það sem margir af þeim sem eru í kringum hann í þessum bransa hafa verið að segja síðustu árin. „Það sýnir hugrekki af hans hálfu að stíga fram og gefa þessu rödd,“ segir Ægir Már. Hann tekur undir áhyggjur Ólafs af því að félagsmenn í verkalýðsfélögum átti sig ekki á hvað það hefur í för með sér þegar verkalýðsfélag boðar til verkfalls. Ólafur Örn birti grein á vefnum Medium þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort sérfræðingar eigi samleið með VR í ljósi framgöngu forystumanna félagsins þegar kemur að kjarabaráttu. Í frétt Viðskiptablaðsins segir Ragnar Þór til skoðunar að deildaskipta VR.

Í greininni segir meðal annars: „Fyrir þremur árum ætlaði VR að fara í verkfall. Í einfeldni okkar héldum við að það gæti ekki verið að það myndi ná til okkar starfsmanna en þannig virka víst verkföllin. Starfsmenn Kolibri sem voru í VR stigu forviða fram og spurðu hvort ekki væri hægt að komast framhjá þessu því þeir hefðu engan áhuga á að fara í verkfall. Einhverjir sögðu sig úr félaginu eftir að kjarasamningar náðust en fólk heldur svo bara áfram að vinna og hættir að pæla í þessu. VR hefur notið vinsælda í hópi sérfræðinga. Það hefur verið eins konar „go-to“ félag þess hóps. En eiga sérfræðingar einhverja samleið með þessu félagi lengur?“ segir í grein Ólafs.

Fólk varð rasandi hissa

„Þetta er nokkuð sem við upplifðum síðast þegar verkföll komu til greina. Ég get sagt nákvæmlega sömu sögu og Ólafur. Ég átti mörg samtöl við fólk hjá Advania þar sem fólk skildi alveg að VR væri að fara í verkfall en væri sjálft alveg sátt við sín kjör og væri ekkert að fara að leggja niður störf,“ segir Ægir Már. „Þetta fólk varð alveg rasandi hissa þegar ég sagði því að það hefði ekkert val. Þú ert búinn að framselja ákveðin réttindi til þessa félags sem fer með samningsumboðið fyrir þína hönd. Það eina sem maður gat gert var að hvetja fólk til að mæta og kjósa um hvort verða ætti af boðuðu verkfalli,“ segir Ægir Már.

„Það olli því að fjölmargir sögðu sig úr VR þegar fólk uppgötvaði þessa skyldu sína,“ segir Ægir Már. „Þetta verður svo einkennilegt þegar þú ert að borga fólki langt yfir umsömdum lágmarkstöxtum og búinn að hækka laun þess með reglubundnum hætti umfram það sem kemur fram í kjarasamningum. Þá er starfsmaðurinn settur í þá stöðu að þurfa að leggja niður störf því einhver annar nær ekki fram sínum markmiðum í samningum. Þetta getur ekki farið svona,“ segir Ægir Már. „Þetta bara virkar ekki.“ Ægir var ekki einn á þessari skoðun en aðrir forsvarsmenn tæknifyrirtækja vildu ekki koma fram undir nafni en lýstu sömu eða svipaðri reynslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .