Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi voru 181.900 talsins í október síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 23 þúsund fleiri en í október á síðasta ári.

Aukningin nemur 14,7% milli ára. Um er að ræða svipaða hlutfallslega aukningu milli ára og í maí til september en mun minni en mældist í janúar til apríl. Frá áramótum hafa um 1,9 milljónir erlendra farþega farið frá landinu sem er um 26,7% aukning frá sama tímabili árinu áður.

Af einstaka þjóðernum voru brottfarir Bandaríkjamanna flestar í október í ár, um 45 þúsund talsins eða um fjórðungur af öllum ferðamönnum og er það fjölgun um 29% á milli ára í október.  Brottfarir Breta komu þar á eftir, voru tæplega 27 þúsund talsins sem eru um 15% af öllum ferðamönnum en þeim fækkar 14% á milli ára í október. Þar á eftir komu Þjóðverjar svo Kanadamenn þá Kínverjar, Pólverjar, Taívanir og Frakkar.

Hlutfallsleg samsetning hefur talsvert breyst

Hlutfallsleg samsetning farþega hefur breyst nokkuð frá árinu 2013 eins og sjá má á myndinni hér að neðan um brottfarir á tímabilinu janúar-október. Norður Ameríkanar voru 31,9% af heild árið 2017 en hlutdeild þeirra hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2013. Hlutdeild Breta var 13,2% árið 2017 en var á bilinu 15,6%-16,9% á árunum 2013-2016. Norðurlandabúar voru 8,6% af heild árið 2017 en hlutdeild þeirra hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið- og Suður Evrópubúa hefur jafnframt minnkað frá 2013 til 2017 en hefur að sama skapi hækkað hjá þeim sem falla undir ,,annað“.