Á öðrum ársfjórðungi ársins var tekjuafkoma hins opinbera jákvæð um 12,9 milljarða króna, sem er um 2,1% af landsframleiðslu tímabilsins eða 4,8% af tekjum hins opinbera að því er Hagstofan greinir frá.

Á sama tíma árið 2016 nam tekjuafgangurinn 2,2% af landsframleiðslu ársfjórðungsins, en allt árið í fyrra var tekjuafkoman jákvæð um 309,5 milljarða króna. Það nemur 12,6% af landsframleiðslu, en til samanburðar var hún neikvæð um 18,2 milljarða árið 2015, sem var um 0,8% af landsframleiðslu.

Ástæðan er að því er Hagstofan greinir frá 384,2 milljarða króna stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu fjármálafyrirtækjanna. Námu tekjurnar í fyrra 1.413,3 milljörðum króna, sem er aukning um 51,8% á milli ára. Mældust þær 57,7% af landsframleiðslu en árið 2015 voru þær 41,7% af landsframleiðslu. Útgjöldin voru hins vegar 1.103,8 milljarðar króna árið 2016, eða 45,1% af landsframleiðslu samanborið við 42,5% árið 2015.

Meðtalið í útgjöldum hins opinbera er gjaldfærsla upp á 105,1 milljarð króna vegna fjármagnstilfærslu ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ef horft er til fyrstu sex mánuða ársins í ár nam afkoman 35,0 milljörðum króna, eða sem nemur 6,5% af tekjum tímabilsins.

Í árslok 2016 var hrein peningaleg eign hins opinbera neikvæð um 847,1 milljarð króna, eða um 34,6% af vergri landsframleiðslu. Batnaði hún um 230,5 milljarða króna frá því í árslok 2015. Námu peningalegu eignirnar 1.282,2 milljörðum króna og heildarskuldirnar námu 2.129,3 milljörðum króna í árslok 2016.