Aflaverðmæti íslenskra skipa dróst saman um 21,9% á milli ára ef miðað er við júnímánuð í ár og síðasta ár að því er Hagstofan greinir frá. Heildarverðmætið í júní síðastliðnum nam 7,1 milljarði króna, en á sama tíma var fiskaflin 26% meiri í tonnum talið heldur en á sama tíma í fyrra eða 53 þúsund tonn.

Samdráttur í verðmæti botnfiskaflans í júní nam 26,4% miðað við fyrra ár, en í heildina var verðmæti hans 5,4 milljarðar króna. Þorskaflinn dróst saman um 19,3% í verðmæti þrátt fyrir 2,8% aukningu í magni, en hann var í heildina 3,3 milljarðar.

Ýsuaflinn hélst svipaður á milli ára, en verðmæti hans dróst saman um 23,5%. Verðmæti flatfiskaflans nam 1.165 milljónum króna, sem er samdráttur um 5,1% miðað við júnímánuð árið áður, en aflaverðmæti uppsjávartegunda nam tæplega 300 milljónum króna. Verðmæti afla skel- og krabbadýra nam svo tæpum 276 milljónum króna.

Ef horft er til 12 mánaða tímabils frá júlí 2016 til júní 2017 nam aflaverðmætið 112,4 milljörðum króna, en það er 19,8% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.