Verðmæti sjávarafla íslenskra skipa í ágúst síðastliðnum nam tæpum 11,9 milljörðum króna sem er jafn mikið og í ágúst 2017. Verðmæti botnfiskaflans nam rúmum 6,9 milljörðum og jókst um 2,9%. Aflaverðmæti þorsks var tæpir 4 milljarðar sem er á pari við ágúst 2017.

Verðmæti uppsjávarafla nam tæpum 3,2 milljörðum og dróst saman um 13,6% samanborið við ágúst 2017. Verðmæti flatfisktegunda nam 1,3 milljörðum og verðmæti skel- og krabbadýraafla 385 milljónum, að því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands .

Á 12 mánaða tímabili, frá september 2017 til ágúst 2018, nam aflaverðmæti úr sjó rúmum 125 milljörðum króna sem er 12,9% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.

Af þessum 11,9 milljarða króna afla fór andvirði 5,6 milljarða til vinnslu innanlands, auk tæplega 1,6 milljarða sem fóru á markað til vinnslu innanlands.

Síðan var andvirði 4,2 milljarða sjófryst til vinnslu erlendis, en það sem var sjófryst til vinnslu innanlands var vart mælanlegt. Þess utan var andvirði 531 milljóna króna sent í gáma til útflutnings, og loks var andvirði 31 milljóna króna landað á annan hátt.

Rúmlega fjórðungi landað í borginni

Mest af andvirðinu var landað á höfuðborgarsvæðinu eða andvirði tæplega 3,3 milljarða sem er samdráttur um 4,5% frá ágúst í fyrra.

Mest aukning var á Norðurlandi vestra, eða tæplega 57% en þar var landað fyrir tæplega 1,1 milljarð króna. Á landsbyggðinni var þó mestu landað á Austurlandi eða fyrir tæplega 2,2 milljarða, sem var 1% samdráttur frá fyrra ári. Næst mest var landað á Suðurnesjum, eða fyrir rúmlega 1,7 milljarð króna, sem er aukning um 7,3% frá sama tíma fyrir ári.

Loks var minstu landað á Vestfjörðum og Vesturlandi, fyrir 585 milljónir á Vestfjörðum sem er 12% samdráttur frá fyrra ári og fyrir 481 milljón á Vesturlandi sem er aukning um 45,1%.