ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur lagt mat á að íslenskar skattareglur sem leggja tafarlausan skatt á óinnleystan hagnað félaga og hluthafa við tilfærslu félaga til annars EES-ríkis sé ekki í samræmi við EES-samninginn.

Samkvæmt íslenskum skattareglum verða íslensk félög sem hugsa sér að flytja utan íslenska skattlögsögu að greiða tafarlausan skatt af óinnleystum hagnaði. Það er álit ESA að slík krafa um tafarlausa greiðslu, án þess að fyrirtækjum sé boðið að fresta greiðslunni, sé í andstöðu við evrópska efnahagssamninginn (EES).

Auk þess telur ESA að skattareglur hérlendis brjóti í bága við stofnsetningarréttinn. Félag sem stendur í millilandasamruna þarf að leggja fram bankatryggingu fyrir fjárhæðir yfir 50 milljónir króna, fái þau frest fyrir greiðslu skattskulda sinna. Stjórnvöldum er aftur á móti óheimilt að krefjast slíkra ráðstafana nema að raunveruleg og sannanleg hætta sé á því að skattkrafan innheimtist ekki.

Rökstutt álit ESA er annað skrefið í meðferð samningsbrotamáls. Ef íslensk stjórnvöld bregðast ekki við innan tveggja mánaða verður málinu vísað til EFTA-dómstólsins.

ESA hefur eftirlit með framkvæmd reglna Evrópska efnahagssvæðisins á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi, og gerir ríkjunum þannig kleift að taka þátt á innri markaði Evrópu.