Ný bílalán íslenskra heimila að frádregnum uppgreiðslum námu 1,8 milljörðum króna í júlí síðastliðnum samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands. Þrátt fyrir heldur leiðinlegt veður á suðvesturhorni landsins í sumar virðist það ekki hafa komið í veg fyrir að landinn fjárfesti í nýjum bílum fjármögnuðum með lántökum. Nýjar lánveitingar til bílakaupa í einum mánuði hafa ekki verið jafn háar í einum mánuði frá hruni eins og í júlí síðastliðnum. Það var þó ekki gamalt met sem var slegið í júlí þar sem mánuðurinn á undan var sá næststærsti frá hruni en ný lán í júní námu 1,7 milljörðum króna. Aukningin milli mánaða nam því 5,8%. Þar á eftir kemur ágúst á síðasta ári þegar lánveitingar námu 1.690 milljónum.

Lánveitingar á fyrstu 7 mánuðum ársins námu 8,7 milljörðum króna og jukust um 6,9% frá sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur hins vegar tæplega 2,3 milljörðum frá sama tímabili árið 2016 eða 35,3%. Heildarlánveitingar á síðustu 12 mánuðum námu 14,1 milljarði króna og hafa ekki verið hærri frá því fyrir hrun. Voru lánveitingar síðustu 12 mánaða 8,1% hærri en í júlí 2017 og eru nú tæplega helmingi hærri en í ársbyrjun 2014.

Eðlileg þróun

„Þetta er sambærilegt og í fyrra sem var stórt ár,“ segir Jón Hannes Karlsson, framkvæmdastjóri Ergo, spurður hvort hann finni fyrir aukningu í lánum til einstaklinga milli ára. „Af því sem ég hef séð á síðustu árum þá finnst mér fólk almennt vera mjög skynsamt þegar það er að taka lán til bílakaupa. Aukning í bílalánum á síðustu árum er mörgu leyti eðlileg þróun þar sem það komu svo mörg ár þar sem lítið sem ekkert var bætt í af nýjum bílum, þá sérstaklega frá 2009-2012. Það voru mjög stórir árgangar frá 2005 og inn í 2008 og þessir bílar hafa verið að fara út. Það er því ennþá ákveðin endurnýjunarþörf til að mæta þeim bílum sem eru að fara út,“ segir Jón Hannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .