Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi var tekin tali í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Þrátt fyrir nafnið er Kaldi bar við Klapparstíg ekki í eigu Agnesar og fjölskyldu. „Frændi minn stofnaði hann og fékk leyfi til að nota nafnið. Brugghúsbarinn á Akureyri, sem við áttum, var stofnaður vegna þess að bareigendur gátu að eigin mati ekki tekið inn nýjar tegundir af bjór. Risarnir voru svolítið búnir að skipta með sér markaðnum og bareigendur ekki í stöðu til að berja í borðið og segjast ætla að selja það sem þeirra kúnnar vildu. Þess vegna stofnuðum við litla búllu á Akureyri til að sýna fram á að ósíaður Kaldi væri góður kostur,“ segir Agnes, en Brugghúsbarinn var opnaður árið 2010. „Við áttum hann í tvö ár og seldum. Eftir það fóru bareigendur að kaupa Kalda. Í dag seljum við 13 börum á höfuðborgarsvæðinu bjór,“ segir Agnes.

Á hverju ári selur Kaldi um 1,2 milljónir bjóra á flösku og um 6.000 bjórkúta. Ferðamenn hafa sett sitt mark á Kalda, bæði brugghúsið sjálft en ekki síður bjórböðin, sem urðu tvöfalt stærri en áætlað var vegna ferðamannastraumsins til landsins. „Við tökum á móti 12.000 til 15.000 manns á ári í bruggsalinn. Það eru mikið til ferðamenn. Bjórböðin opnuðu svo 1. júní og hafa alveg slegið í gegn. Sumarið var alveg svakalega gott og veturinn þannig að helgarnar hafa gengið mjög vel en ákváðum samt að hafa opið alla daga vikunnar,“ segir Agnes, en þar starfa meðal annars frænka hennar og systir. Bjórböð eru nýjung á Íslandi en hafa tíðkast lengi í Tékklandi. Bjórinn sem gestir baða sig upp úr er mjög ungur og óáfengur bjór, þannig að böðin henta jafnt ungum sem öldnum og þeim sem ekki neyta áfengis. „Við tökum bjórinn þegar hann er mjög ungur en bætum við hann gerinu okkar, sem annars var hent,“ segir Agnes. Bjórböðum kynntist Agnes fyrst árið 2008 þegar þau fóru með sínum bruggmeistara til Tékklands.

„Ég hef eiginlega ekki fengið frið fyrir sjálfri mér síðan þá. Ég hef í huganum lagt af stað nokkrum sinnum en aldrei fylgt því eftir. Tækifærið kom allt í einu þegar sonur minn og tengdadóttir keyptu eyðibýlið þar sem bjórböðin eru núna. Þau ætluðu að byggja þarna en við lokkuðum þau til að láta okkur fá lóðina. Á þeim tíma bjuggu þau á Akureyri en ég setti það skilyrði að þau myndu flytja hingað,“ segir Agnes og brosir. Húsin eru hin glæsilegustu, innflutt timburhús innblásin að sögn Agnesar frá heimsókn hennar til Færeyja. Framkvæmdir við bjórböðin hófust árið 2015 og voru opnuð sem áður segir síðasta sumar. Baðgestir eru að jöfnu Íslendingar og ferðamann. „Ef ferðamaðurinn hefði ekki verið svona sterkur hefði ég haft bjórböðin svona helmingi minni,“ segir Agnes, en heimsókn í bjórböðin leiddi í ljós að þar er ekkert til sparað, hvorki í böðin sjálf, frágang og umhverfi né glæsilegan veitingasalinn. „Ég er dálítið að veðja á ferðamenn og við höfum fengið gríðarlega mikla athygli úti í heimi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .