*

sunnudagur, 16. desember 2018
Innlent 24. júní 2018 17:02

Taka stöðu með íbúum

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar segir að bæjarstjórn taki sér stöðu við hlið íbúa varðandi framtíð stóriðju í Helguvík.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptablaðið fjallaði í gær um breytta stefnu bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og hvaða aflæðingar sú stefnubreyting gæti haft í för með sér. 

Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir að nýr bæjarstjórnarmeirihluti hafi viljað ítreka þá skoðun síðustu bæjarstjórnar að nóg væri komið af stóriðjustarfsemi í Helguvík. „Þetta er mikil stefnubreyting frá þeirri stóriðjustefnu sem verið hefur til fjölda ára. Það má segja að þetta sé ekki pólitískt mál innan bæjarstjórnar þar sem öll framboðin sem buðu fram í síðustu kosningum voru með þetta á stefnuskránni. Í málefnasamningnum er tekið mjög ákveðið á þessu og sú skoðun sett fram að við höfnum mengandi stóriðju í Helguvík. Það er hins vegar undir þeim komið sem starfa þarna núna, sem áður hét United Silicon, að sannfæra íbúa bæjarfélagsins um að það sé hægt að gera þetta rétt og hafa hlutina í lagi.“

Spurður hvort stefna bæjarstjórnar gæti bakað bæjarfélaginu skaðabótaábyrgð gagnvart þeirri stóriðju sem fyrir er og er fyrirhuguð segir Friðjón: „Maður veit ekki hver endirinn á þessu verður. Auðvitað væri best að ljúka þessu með samkomulagi en þetta er gríðarlega flókið mál. Allt sem snýr að lögum, starfsleyfi, hafnarsamningum og skuldbindingum við Reykjanesbæ. Þetta gæti endað fyrir dómstólum sem ég vona þó að gerist ekki. Það yrði engum til hagsbóta.“

Segir Friðjón að frá sjónarhorni bæjarstjórnar snúist málið fyrst og fremst um að sátt náist við íbúa Reykjanesbæjar. „Ef íbúarnir vilja þetta ekki þá munum við standa með þeim, það er alveg klárt mál. Við erum ekki talsmenn einhverjar verksmiðju og munum aldrei verða. Við erum fulltrúar íbúa og munum standa með þeim. Það er of snemmt að segja hvernig þetta fer en íbúarnir munu hafa seinasta orðið í þessu máli.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.