Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði samstarfsyfirlýsingu vegna uppbyggingar stórskipahafnar í Finnafirði við Bakkaflóa fyrir ríkisstjórnarfund í vikunni.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að yfirlýsingin væri klár til undirritunar en að beðið væri eftir því að stjórnvöld gæfu sér tíma til að undirrita hana. Að yfirlýsingunni standa Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, íslenska ríkið, þýska fyrirtækið Bremenport og Efla. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu eru stjórnvöld jákvæð fyrir verkefninu og þess vegna var málið lagt fyrir ríkisstjórnarfund.

Munu stjórnvöld leggja áherslu á að þegar skrifað verði undir verði tryggt að fjárhagsskuldbindingar ríkisins verði litlar að svo stöddu enda sé enn verið að rannsaka svæðið og verkefnið tiltölulega stutt á veg komið.