Í grein á vef Samtaka fjármálafyrirtækja segir Katrín Júlíusdóttir að frá stofnun Samtaka fjármálafyrirtækja hefur efling fjármálalæsis verið eitt af helstu baráttumálum samtakanna. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöld bæti fjármálalæsishlutanum við næst þegar PISA-könnunin verður gerð hér á landi, en samtökin lýsa sig í greininni reiðubúin að aðstoða til að svo megi verða.

Í greininni segir auk þess að SFF hafi lagt áherslu á að fjármálafræðsla verði tekin inn í námskrá grunnskólanna og standa jafnframt að fræðsluverkefninu Fjármálavit í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða. Fjármálavit sé námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og er tilgangurinn að veita kennurum innblástur í kennslu um fjármál einstaklinga.

Þar segir einnig að stafræna byltingin hafi leitt til byltingar á miðlun fjármálaþjónustu. „Ungt fólk getur nú nýtt sér fjölbreytta fjármálaþjónustu með því að styðja á nokkra hnappa í snjalltækjum. Ekki sér fyrir endann á þessari þróun og þar af leiðandi er ákaflega brýnt að vinna markvisst að eflingu fjármálalæsis. Lengi býr að fyrstu gerð og þess vegna þarf slík fræðsla að hefjast í grunnskólum,“ segir í greininni.