Hugbúnaðarfyrirtækið Takumi International ltd. hefur tryggt sér svokallaða „Series B“ fjármögnun, sem er önnur lota fjármögnunar fyrir sprotafyrirtæki. Fjármögnunin kemur frá breskum og bandarískum sjóðum og nemur 420 milljónum króna.

Takumi var stofnað árið 2015 og rekur markaðstorg fyrir auglýsendur og áhrifavalda á instagram. Stofnendur fyrirtækisins eru Guðmundur Eggertsson, Jökull Sólberg og Mats Stigzelius, og fyrirtækið er með 40 starfsmenn, þar af 9 á Íslandi.

Í tilkynningu um málið segir Jökull Sólberg, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fjármagnið verða notað til að styrkja forritarateymið í Reykjavík, og áframhaldandi vöxt á Bandaríkjamarkaði. Þá er Takumi sagt njóta góðs af örum vexti áhrifavaldamarkaðssetningar og mikilli útbreiðslu Instagram, sem er í eigu Facebook, en mánaðarlegur notendafjöldi Instagram er yfir milljarður.