*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 10. ágúst 2012 12:02

Á Tali hjá Hemma Gunn snýr aftur á RÚV

Þórhallur Gunnarsson stýrir þætti á RÚV þar sem sýnd verða brot úr spjallþáttum Hermanns Gunnarssonar. Hermann verður gestur.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Tólf þættir með úrvali úr spjallþáttunum Á tali hjá Hemma Gunn verða sýndir í RÚV haust í stað annarrar seríu þáttanna Dans, dans, dans í umsjón Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur sem RÚV sýndi í fyrra. Þórhallur Gunnarsson stýrir þáttunum og fær hann Hermann Gunnarsson í settið þar sem þeir fara yfir þættina. Á Tali með Hemma Gunn og aðrir spjallþættir Hermanns voru sýndir á RÚV á árabilinu 1987 til 1997 og nutu mikilla vinsælda. 

Þættirnir hafa ekki fengið nafn en vinnuheiti þeirra er Hemmi tekinn tali. Fyrsti þátturinn fer í loftið 6. október næstkomandi og sá síðasti, sem verður sérstakur jólaþáttur, verður á skjánum 22. desember. 

Fram kom í viðtali við Ragnhildi Steinunni í Lífinu, fylgiblaði Fréttablaðsins, í dag að dansþáttunum hafi verið frestað um eitt ár af fjárhagslegum ástæðum. 

Saga Film framleiddi dansþættina fyrir RÚV.

„Þetta er mjög dýr framleiðsla og aðgerð sem við urðum að grípa til,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri RÚV, í samtali við vb.is. „Við teljum líka að með því að hafa þættina aftur á næsta ári þá lengi það líftíma seríunnar.“

Sigrún bætir við að þrátt fyrir þetta sé RÚV að vinna að fleiri verkefnum með Saga Film sem landsmenn muni sjá á skjánum.