Síðustu vikur hafa átt sér stað fundarhöld fulltrúa innlendra lífeyrissjóða við bankastjóra og fjármálastjóra Arion banka, þar sem að þeir síðarnefndu kynntu starfsemi hans með aðkomu sjóðanna fyrir augum, við sölu bankans. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu .

Gögnin sem lágu fyrir á fundinum byggðust á 9 mánaða uppgjöri Arion banka sem kynnt var síðastliðinn nóvember. Í frétt Morgunblaðsins segir að ljóst þykir, samkvæmt þeirra heimildum, að tilgangur fundahaldanna sé að búa lífeyrissjóði undir að til þeirra verði leitað og þeim boðinn hlutur í bankanum þegar kemur að sölu hans. Það gæti verið í apríl, samkvæmt sömu heimildum.

Á fundi forsvarsmanna Arion banka og lífeyrissjóðanna kom jafnframt fram að stefnt væri að tvöfaldri skráningu annars vegar í Stokkhólmi og hins vegar í Reykjavík, að því er kemur fram í Morgunblaðinu.

Erlendir aðilar aðstoða

Arion banki hefur jafnframt hafið undirbúning fyrir skráningu á markað erlendis samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar . Hún gæti átt sér stað í apríl, ef marka má fréttina.

Kaupþing - sem fer með 87% eignarhlut í Arion banka - hefur beðið sænska fjárfestingabankann Carnegie um aðstoð við skráninguna. Samkvæmt fréttum í fyrra var talið líklegt að skráning bankans færi fram í Svíþjóð. Einnig aðstoða Citi og Morgan Stanley við skráninguna, segir í fréttinni. Aðrir bankar meðal annars Deutsche Bank, eiga aðild að skráningunni.

22 milljarða hagnaður

Í gær var tilkynnt um afkomu Arion banka á árinu 2016. Hagnaður bankans á árinu 2016 nam 21,7 milljörðum króna samanborið við 49,7 milljarða króna árið 2015.

Arðsemi eigin fjár var 10,5% á árinu samanborið við 28,1% árið 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi bankans nam 4,7% samanborið við 8,7% á árinu 2015. Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 9,7 milljörðum króna, samanborið við 14,1 milljarð árið 2015.