Alþjóðlegir fjárfestar hafa ekki tekið vel í ósk Spánverja um lánafyrirgreiðslu frá evruríkjunum til að koma bönkum þar í landi á réttan kjöl. Helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað um og yfir 1% beggja vegna Atlantsála eftir að greint var frá því að ríkisstjórn Spánar hafi formlega eftir láni í dag.

AP-fréttastofan hefur eftir sérfræðingi hjá Credit Agricole, að fjárfestar hafi litla trú á því að þjóðarleiðtogar Evrópusambandsríkjanna muni bretta upp ermar og grípa til aðgerða til að vinna bug á vanda þeirra evruríkja sem komin eru að fótum fram vegna skuldaklafans. Hann segir Grikkland lýsandi dæmi um hvað sé undir. Ljóst þyki að landið þurfi á frekari hjálp að halda. Leiðtogar þeirra landa sem mestu ráða um örlög landsins geti hins vegar ekki komið sér saman um aðgerðir.

Þessi óvissa hefur eins og áður segir komið skýrt fram á helstu fjármálamörkuðum í dag. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 1,34%, DAX-vísitalan í Þýskalandi fallið um 2,23% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fallið um 2,60%.

Þá hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkað um 1,33%, S&P 500-vísitalan lækkað um 1,61% og Nasdaq-vísitalan farið niður um 1,83%.