*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 17. maí 2017 16:54

Talsverð velta eftir vaxtalækkun

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,98% eftir að Seðlabanki Íslands ákvað að lækka meginvexti bankans úr 5 í 4,75 prósent.

Ritstjórn
Peningastefnunefnd Seðlabankans
Aðsend mynd

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,98% eftir að Seðlabanki Íslands ákvað að lækka meginvexti bankans úr 5 í 4,75 prósent. Velta með hlutabréf á aðalmarkaðinum nam í heild sinni 4.965 milljónum króna. Heildarvísitalan hækkaði því um 1,56% og hefur hækkað um 14,08% frá áramótum.

Öll úrvalsvísitölufélögin tóku kipp, en þar af var Reitir fasteignafélag hf. hástökkvarinn. Fasteignafélagið hækkaði um 3,32% í nær 536 milljón króna viðskiptum. Gengi Haga hf. hækkaði um 2,52% í 376 milljón króna viðskiptum og gengi Marel um 2,39% í 2,1 milljarða króna viðskiptum.  

Önnur félög á aðalmarkaði Kauphallar Íslands tóku einnig kipp, fyrir utan Nýherja hf. sem lækkaði um 1,26% í 8,4 milljón króna viðskiptum. Reginn hf. tók til að mynda stökk og hækkaði um 2,56% í 338 milljón króna viðskiptum.

Heildarvelta á skuldabréfa markaðinum nam 9,7 milljörðum króna og þá fór aðalvísitala skuldabréfa upp í 1.295,24 stig sem nemur 0,31% hækkun.

Stikkorð: Kauphöll Vextir Hækkun