Þótt 34,3 milljóna króna tap hafi verið af rekstri Hótel Sögu á síðasta ári nam hagnaður af Bændahöllinni 39,5 milljónum króna á árinu. Viðsnúningurinn á rekstri hótelsins frá fyrra ári nam 81,8 milljónum króna, meðan hagnaður Bændahallarinnar dróst aðeins saman um tæpar 1,4 milljónir króna.

Bæði félögin eru í eigu Bændasamtaka Íslands, en Bændahöllin heldur utan um rekstur fasteignarinnar, þar sem samtökin hafa auk hótelsins aðstöðu sína. Rekstrartekjur hótelsins dógust saman um rúmar 66,4 milljónir króna frá fyrra ári en þær námu tæplega 1,89 milljörðum króna á árinu 2017.

Rekstrartap hótelsins fyrir vexti, skatta og afskriftir, EBITDA, nam því 50 milljónum króna árið 2017, sem er um 150 milljóna viðsnúningur frá árinu 2016. Bændahöllin var hins vegar með 462,4 milljóna rekstrartekjur árið 2017, sem er aukning um 20,4% frá árinu áður.

Greiðslur hótelsins á vörum og þjónustu til Bændahallarinnar námu 381 milljón króna, að frádreginni sölu til hótelsins, en Bændasamtökin keyptu af hótelinu fyrir um 7 milljónir króna.