*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 25. apríl 2018 12:00

Tap á hótelinu í Eimskipahúsinu

Viðsnúningur af rekstri Hótel 1919 í miðborg Reykjavíkur nam 47 milljónum króna árið 2017 og var tapið 9 milljónir.

Ritstjórn
Gamla Eimskipafjelag Íslands, stofnað 1914, var með höfuðstöðvar sínar í húsinu frá árinu 1921 og lengi gnæfði merki félagsins blámálað yfir borginni þar sem merki 1919 er nú komið yfir.
Aðsend mynd

Hótelið 1919 við Pósthússtræti, sem rekið er þar sem Eimskipafjelags Íslands var með höfuðstöðvar allt frá árinu 1921, tapaði 9 milljónum króna á síðasta ári, að því er Fréttablaðið greinir frá. Hótelið, sem er rekið sem hluti af Radisson Blu keðjunni, skilaði hins vegar 38 milljóna króna hagnaði árið 2016, svo viðsnúningurinn nemur 47 milljónum króna.

Tekjur Eignarhaldsfélagsins Hótel 1919, námu 845 milljónir króna, og drógust þær saman um nærri 55 milljónir króna á árinu. Launakostnaður félagsins hækkaði um 10%, og nam hann 298 milljónum króna. Eignir félagsins námu 348 milljónum í lok síðasta árs, en eigið fé þess var 191 milljón króna.

Hótelið er rekið með langtímasamningi við Rezidor Hotels ApS keðjuna, en það er í eigu LF2 ehf., dótturfélags Landfesta, sem er aftur dótturfélag Eikar fasteignafélags.