Afkoma Vefpressunar ehf. á síðasta ári var neikvæð um 8,6 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi félagsins sem var samþykktur á aðalfundi í morgun. Vefpressan á og rekur meðal annars vefmiðlana Pressuna, Eyjuna, Bleikt og Menn, auk netverslunarinnar Bútik. Greint er frá afkomu síðasta árs á Pressunni .

Rekstrartap á árinu 2009 var rúmlega 30 milljónir á árinu 2009, og var því töluvert minna á síðasta ári. Árið 2010 var fyrsta heila rekstrarár félagsins en það var stofnað í febrúar 2009.

Fram kemur í frétt Pressunar að rekstrartekjur félagsins margfölduðust milli ára. Þær voru um 22 milljónir árið 2009 og voru 107,6 milljónir í fyrra. Afkoma ársins 2010 fyrir fjármagnsliði og afskriftir var neikvæð um 840.230 krónur. Rekstrargjöld félagsins voru 108,4 milljónir, og ríflega tvöfölduðust milli ára.

Þá eru eignirnar metnar á um 111 milljónir króna í ársreikningi síðasta árs, samanborið við 26 milljónir 2009. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok 2010 var tæplega 70%. Vaxtaberandi skuldir námu um 23 milljðónum króna í árslok.

Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunar, segist í frétt Pressunar vera mjög sáttur við reksturinn. „Félagið hefur verið í örum vexti og afkoman ber þess merki þar sem stofnkostnaður er nokkuð hár fyrst í stað. Á hinn bóginn er á það að líta, að tekjur félagsins hafa aukist stórum og skuldir þess eru mjög litlar og eiginfjárhlutfall mjög traust. Á þessu ári hefur jákvæð þróun einnig átt sér stað, við höfum opnað nýja og vinsæla vefmiðla og stóraukið hlutdeild okkar í netverslun.“

Stærstu eigendur Vefpressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson, Arnar Ægisson, VÍS hf, Salt Investment, Ólafur Már Svavarsson, Steingrímur Sævarr Ólafsson og Guðjón Elmar Guðjónsson.