*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Innlent 16. september 2015 09:01

Tapa allt að 2,5 milljörðum vegna Rússabannsins

Byggðastofnun hefur tekið saman byggðaleg áhrif viðskiptabanns Rússa gegn Íslandi.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mat á byggðalegum áhrifum viðskiptabanns Rússlands gegn Íslandi, eftir beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í síðasta mánuði.

Stofnunin segir að samtals megi reikna með að tekjutap sjómanna og landverkafólks vegna innflutningsbannsins geti verið á bilinu 990 milljónir til 2.550 milljónir króna á ársgrundvelli.

Í samantekt stofnunarinnar er tekjutap sjómanna áætlað 440 til 1.000 milljónir króna, en talið er að 400 sjómenn yrðu fyrir tekjutapi. Tekjutap landverkafólks við frystingu er talið geta verið á bilinu frá 860 til 1.870 milljóna króna, en þar er talið að 780 manns verði fyrir tekjumissi.

Á móti kemur að vegna aukinnar bræðslu þarf 220 fleiri starfsmenn til starfa í bræðslunum og eru laun þeirra áætluð á bilinu frá 310 til 350 milljónir króna.

Þá er tekjutap sveitarsjóða vegna lægri útsvarstekna áætlað á bilinu 143 til 364 milljónir króna og tekjutap vegna lægri aflgjalda er áætlað allt að 43 milljónum króna.