Vogunarsjóðsstjórar sem tóku hafa skortselt hlutabréf rafbílaframleiðandans Tesla, hafa tapað um 607 milljónum dollara það sem af er degi miðað við mat S3 Partners. Þetta kemur fram í frétt CNBC .

Frá því að Tesla birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 6,51% en mat S3 miðaðist við 6% hækkun og því er tap vogunarsjóðsstjóranna líklega enn meira en 607 milljónir dollara það sem af er degi.

Tesla er það fyrirtæki á bandarískum hlutabréfamörkuðum sem er mest skortselt. Hafa fjárfestar skortselt bréf fyrirtækisins fyrir um 9 milljarða dollara í von um að hagnast á því að gengi bréfanna lækki. Bréfin hafa verið skortseld fyrir um 2,4 milljarða hærri upphæð en bréf fjarskiptafyrirtækisins AT&T sem er koma í öðru sæti yfir þau bréf sem fjárfestar virðast hafa mesta trú á að lækki í verði.

Frá byrjun árs 2016, hafa þeir sem skortseldu bréf Tesla tapað samtals 3,64 milljörðum dollara á sama tíma og skortsala bréfanna hefur aukist um 49%. Á síðustu tólf mánuðum hefur hlutabréfaverð Tesla hækkað um rúm 53% og um 62% það sem af er þessu ári.