Einn ríkasti Ástrali heims, John Kahlbetzer, tapaði 1 milljón dala eða andvirði 105 milljónum íslenskra króna í tölvupóstsvindli. Kalbetzer tapaði peningunum þegar svindlurunum tókst að telja fjárhagsráðgjafa hans trú um að þeir væru Kalbetzer að því er kemur fram á vef Bloomberg .

Svindlararnir sendu tölvupóst á Christine Campbell, fyrrnefndan ráðgjafa, og þóttust vera Kalbetzer og báðu hana um að millifæra 1 milljón dala á reikning manns að nafni David Aldrigde. Kalbetzer hefur nú lagt fram kæru gegn Aldrigde til þess að endurheimta peningana en sá síðarnefndi segist einnig hafa lent í svindli og verið notaður.

Aldrigde segist hafa hitt konu á netinu sem hann taldi sig vera í ástarsambandi við en hann millifærði bróðurpart upphæðarinnar á reikninga sem hann taldi að væru í eigu konunnar, sem kallaði sig Nancy Jones. Hún sagðist þurfa fjármunina til þess að greiða erfðafjárskatt af dánarbúi foreldra sinna sem hún myndi svo fá í sínar hendur og þau gætu í kjölfarið notið ágóða arfsins og búið saman. Það gekk ekki eftir og Aldrigde segist einnig vera fórnarlamb í málinu sem er nú fyrir dómstólum í Bretlandi.