Teitur Már Sveinsson héraðsdómslögmaður er genginn til liðs við Fasteignamál Lögmannsstofu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fasteignamál Lögmannsstofu.

Stofan sérhæfir sig í öllum málum er varða fasteignir svo sem fasteignakaupamálum, eignaréttarmálum, gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, verktaka- og útboðsmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum. Meðal viðskiptavina stofunnar eru einstaklingar, fyrirtæki, félög og stofnanir.

Teitur Már lauk sveinsprófi í múrverki frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2005 og útskrifaðist með meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands árið 2011. Sama ár hlaut Teitur málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Frá 2011 starfaði Teitur sem lögmaður hjá JP Lögmönnum fram til 1. september 2016 er hann gerðist meðeigandi Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur hdl. að Fasteignamál Lögmannsstofu.

Teitur Már hefur flutt fleiri tugi mála fyrir dómi og öðlast yfirgripsmikla þekkingu og víðtæka reynslu á nálega öllum sviðum lögfræðinnar og ekki hvað síst á sviði fasteignalöggjafar þar sem þekking hans og reynsla sem iðnaðarmaður kemur að góðum notum. Samhliða lögmannsstörfum sínum hefur Teitur Már annast kennslu á námskeiði til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja og skipasala hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.