Tekjur rafbílaframleiðandans Tesla námu um 2,8 milljörðum dollara á örðum ársfjórðungi þessa á og tæplega tvöfölduðust miðað við sama tímabil í fyrra. Tap félagsins jókst hins vegar um 43 milljónir dollara og nam 336 milljónum dollara á tímabilinu.

Samkvæmt frétt BBC jókst kostnaður við rannsóknir, þróun og sölu um 15% á tímabilinu og varð þess valdandi að tap jókst á tímabilinu.

Félagið sem setti hinn nýja Model 3 bíl á markað á dögunum, afhenti rúmlega 47.000 bíla á fyrri helmingi ársins sem er 50% aukning frá sama tíma í fyrra. Tesla greindi einnig frá því að síðan Model 3 bílinn var settur á markað hafi fyrirtækinu borist að meðaltali um 1.800 pantanir á dag.

Þrátt fyrir aukið tap virðast viðbrögð fjárfesta við uppgjörinu vera jákvæð. Hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 5,86% á eftirmarkaði frá því að uppgjörið var birt.